Klerkastjórnin í Íran lét í morgun taka af lífi njósnara sem á að hafa starfað fyrir ísraelsku leyniþjónustuna Mossad.
„Dauðarefsingunni var framfylgt í morgun gegn njósnara Síonistaríkisins í Zahedan fangelsinu,“ segir í frétt Mizan sem er fréttastofa íranska dómskerfisins.
Ekki er ljóst hvenær maðurinn var handtekinn né hver maðurinn er en í fréttinni segir að hann hafi verið fundinn sekur um að hafa safnað gögnum fyrir ísraelsku leyniþjónustuna Mossad „með það að markmiði að raska allsherjarreglu“ í Íran.
Íran og Ísrael eru erkifjendur en Íran neitar að viðurkenna tilvist Ísraels sem sjálfstætt ríki og styður við ýmsa vígahópa í miðausturlöndum sem beina spjótum sínum að Ísrael, eins og til dæmis hryðjuverkasamtökin Hamas og Hisbollah sem og uppreisnarhóp Húta í Jemen.
Írönsk stjórnvöld saka Ísrael um að hafa í gegnum árin framkvæmt skemmdarverkaárásir og morð til að raska framgang kjarnorkuáætlunar Írans.
Samkvæmt mannréttindasamtökum, þar á meðal Amnesty International, taka Íranar fleiri af lífi á ári en nokkur önnur þjóð, fyrir utan Kína. Í skýrslu sem kom út í nóvember hjá Amnesty sagði að Íran hefði tekið meira en 600 manns af lífi það sem af er þessu ári.
Í desember í fyrra voru fjórir menn hengdir af írönskum stjórnvöldum fyrir að hafa verið meintir njósnarar Mossad.