„Blóðbað“ á sjúkrahúsinu

Palestínumenn á flótta leita skjóls á Al-Shifa sjúkrahúsinu 10. desember.
Palestínumenn á flótta leita skjóls á Al-Shifa sjúkrahúsinu 10. desember. AFP/

Bráðadeildin á Al-Shifa sjúkrahúsinu í norðurhluta Gasa er „blóðbað“ eftir sprenguárásir Ísraelshers að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Teymi á vegum WHO og annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna tókst að koma nauðsynlegum birgðum til sjúkrahússins í gær. Um er að ræða stærsta sjúkrahús Gasa en Ísraelsher telur að hryðjuverkasamtökin Hamas reki stjórnstöð undir því.

Í yfirlýsingu WHO segir að tugþúsundir manna hafi leitað skjóls á sjúkrahúsinu og þar sé alvarlegur skortur á mat og drykkjarvatni.

Þarfnast „endurlífgunar“

Á sjúkrahúsinu eru mjög fáir starfsmenn og flytja þarf sjúklinga sem þurfa að gangast undir skurðaðgerð á Al-Ahli Arab sjúkrahúsið á Gasa.

Ekki er hægt að nota skurðstofur á Al-Shifa vegna skorts á súrefni og öðrum birgðum. Að sögn teymisins þarfnast sjúkrahúsið „endurlífgunar“.

WHO kveðst ætla að styrkja sjúkrahúsið á næstu vikum til þess að hægt verði að sinna þar grunnþjónustu á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert