Líkir aðgerðum við rússneska rúllettu

Frá mótmælum í Tel Avív í Ísrael.
Frá mótmælum í Tel Avív í Ísrael. AFP/Ahmad Gharabli

Faðir ungs manns í haldi hryðjuverkasamtakanna Hamas líkir björgunaraðgerðum Ísraels við rússneska rúllettu. Fjölskyldur gísla krefjast þess að ísraelsk stjórnvöld hefji samningaviðræður um fangaskipti.

Fréttir af dauða þriggja ísraelskra gísla sem voru skotnir af ísraelskum hermönnum hafa kveikt hávær mótmæli í Ísrael og hafa ættingjar eftirlifandi gísla lýst yfir áhyggjum af því að ástvinir þeirra gætu verið næstir.

Ruby Chen, faðir nítján ára hermanns í haldi Hamas, sagðist líða eins og verið væri að spila rússneska rúllettu með líf gíslanna.

„Það eina sem við fáum aftur og aftur eru látnir gíslar,“ sagði Noam Perry, dóttir gíslsins Haim Perry. „Hafið okkur í huga og komið með áætlun núna.“

Frelsun gísla mikilvægust

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur gefið í skyn að samningamenn frá Katar vinni að samkomulagi um nýtt vopnahlé. Katar staðfesti það í yfirlýsingu.

Netanjahú sagði frelsun gísla mikilvægasta á þessari stundu. Vígamenn Hamas leggjast hins vegar gegn fangaskiptum þar til árásum linnir á Gasa.

Um 250 manns voru teknir í gíslingu í árás Hamas-samtakanna þann 7. október, auk þess sem 1.140 manns voru drepnir samkvæmt tölum ísraelskra stjórnvalda.

Að sögn Hamas hafa 18.800 manns látist í árásum Ísraelshers á Gasa, aðallega konur og börn.

Frá samstöðufundi með Palestínu í Jakarta í Indónesíu.
Frá samstöðufundi með Palestínu í Jakarta í Indónesíu. AFP/Bay Ismoyo
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert