Þrálátar árásir á flutningaskip

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur flutt Dwight D. Eisenhower flugmóðurskipið, og flotann …
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur flutt Dwight D. Eisenhower flugmóðurskipið, og flotann sem fylgir því, frá Persaflóa inn í Adenflóa, undan ströndum Jemen. AFP/Merissa Daley/Bandaríska varnarmálaráðuneytið

Þrálátar árásir uppreisnarhóps Húta í Jemen gegn flutningaskipum á Rauðahafi héldu áfram í gær og skoða nú æðstu embættismenn í ríkisstjórn Joe Bidens Bandaríkjaforseta leiðir til að svara árásunum.

Í gær þurfti bandaríski tundurspillirinn USS Carney að skjóta niður 14 árásardróna sem skotið var á loft af Hútum í átt að skipum á Rauðahafi. Í gær gerðist það einnig að breski tundurspillirinn HMS Diamond þurfi að skjóta niður dróna frá Hútum í átt að skipum á Rauðahafinu. Á föstudag hæfðu Hútar tvö atvinnuskip, eitt skipið með dróna og annað með flugskeyti.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur flutt Dwight D. Eisenhower flugmóðurskipið, og flotann sem fylgir því, frá Persaflóa inn í Adenflóa, undan ströndum Jemen, til að styðja við hugsanleg viðbrögð Bandaríkjanna við árásum. Þetta segja embættismenn í samtali við fréttamiðilinn Politico. Segja þeir einnig að herinn hafi veitt herforingjum áætlanir til að svara fyrir árásir.

Varnarmálaráðuneytið hefur ekki staðfest þessar upplýsingar. Politico greinir frá.

Meiri þungi færst í árásirnar

Hútar styðja hryðjuverkasamtökin Hamas í stríði sínu við Ísrael og hófu árásirnar á Rauðahafi í kjölfar þess að stríðið hófst.

Klerkastjórnin í Íran styður Húta sem og Hamas og Hisbollah og hefur ríkisstjórn Bidens verið treg til að svara þessum árásum af fullum þunga af ótta við það að stigmagna átökin í Mið-austurlöndum enn frekar.

Meiri þungi hefur færst í árásir Húta, sem ekki aðeins eru ógn við öryggi á svæðinu heldur líka við alþjóðlegar skipaleiðir og alþjóðlega verslun, en tvö af stærstu skipa­fé­lög­um heims Maersk og Hap­aq-Loyd hafa til­kynnt að þau hygg­ist hætta skipa­ferðum um Rauðahaf tíma­bundið, og gæti verið að skoðanir bandarískra varnarmálafulltrúa um að skerast ekki í leikinn sé að breytast.

Bættu við þremur tundurspillum

Loyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, mun ferðast til Mið-Austurlanda í þessari viku og mun funda með leiðtogum Ísraels, Barein og Katar.

Í liðinni viku bættu Bandaríkjamenn við þremur tundurspillum á Miðjarðarhafi til að tryggja varnir enn frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert