Varar Finna við vegna inngöngu í NATO

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP/Alexander Kazakov

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur varað nágrannaríki sitt Finnland við því að ákvörðun Finnlands, um að ganga í Atlantshafsbandalagið (NATO) fyrr á þessu ári, muni skapa vandamál fyrir ríkið.

Sagði Pútín að Rússland myndi endurvekja Leníngrad-hersvæðið í norðvesturhluta Rússlands til að bregðast við inngöngu Finna í NATO, í viðtali sem birt var í dag. Varð þetta tiltekna hersvæði til árið 1864 en svo sameinað fleiri svæðum árið 2010.

Finnland, sem hefur 1.340 kílómetra löng landamæri við Rússland, hefur lokað landamærum sínum að Rússlandi og sakað ríkið um að skipuleggja flóttamannavanda á landamærum þess.

„Þeir (Vesturlöndin) drógu Finnland inn í NATO. Vorum við í einhverjum deilum við þá? Allar deilur, þar á meðal landhelgisdeilur um miðja 20. öld, hafa fyrir löngu verið leystar,“ sagði Pútín við ríkissjónvarpsfréttamann.

„Það voru engin vandamál þarna, nú verða þau, því við munum búa til Leníngrad-hersvæðið og sameina þar ákveðið magn af herdeildum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert