Ríki Evrópusambandsins samþykktu í morgun nýja stefnu er varðar málefni flóttafólks og hælisleitenda.
Var ákveðið að herða reglur og landamæri Evrópu í þeim tilgangi að létta undir með Suður-Evrópuríkjum, eins og Grikklandi og Ítalíu, sem hafa borið þungann af flæði þeirra sem leita til Evrópu.
Til hefur staðið að mynda heilsteypta stefnu og samræmda löggjöf um málefni flóttafólks innan sambandsins frá árinu 2020. Viðræður hafa staðið yfir síðan á mánudag og var löggjöfin að lokum samþykkt í morgun.
Löggjöfin lýtur að hraðari meðferð á málum flóttafólks, uppbyggingu lokaðra búsetuúrræða, sneggri heimsendingar á hælisleitendum sem þegar hafa fengið synjun um vernd og samstöðukerfi til að létta undir með Suður-Evrópulöndunum.
Þess má geta að Ungverjaland lagðist gegn ákvæðinu um samstöðukerfi innan ESB og kveðst utanríkisráðherra landsins, Peter Szijjarto, afar ósáttur með niðurstöðuna. Engir flóttamenn fái að koma til landsins án samþykkis stjórnvalda.
Fjöldi samtaka sem berjast fyrir réttindum fólks á flótta hafa sagt löggjöfina grimmilega og hættulega aðgerð sem muni ýta undir þjáningar þegar viðkvæms hóps. Björgunarsamtökin Sea Watch kölluðu nýju löggjöfina dauðagildru fyrir fólk á flótta í tilkynningu í dag.
Frontex, landamærastofnun Evrópu, greindi frá því í vikunni að yfir 355 þúsund hefðu komið ólöglega til Evrópu fyrstu ellefu mánuði ársins. Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna hafa 2.200 látið lífið á þessu ári í Miðjarðarhafinu á leið sinni til Evrópu.
🚨BREAKING: EU's New Migration Pact is a death sentence for asylum rights and a bloody stain on human rights! The #CEAS agreement will perpetuate violence and neglect at our borders. The EU had a chance to end the dying but chose the far-right path.
— Sea-Watch International (@seawatch_intl) December 20, 2023
Read the statement here… pic.twitter.com/kjwcEWC2MG