Trump má ekki bjóða sig fram í Colorado

Donald Trump má ekki bjóða sig fram í Colorado á …
Donald Trump má ekki bjóða sig fram í Colorado á næsta ári. AFP/Mary Altaffer

Áfrýjunardómstóll í Colorado hefur komist að þeirri niðurstöðu að Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, megi ekki taka þátt í forkosningum forsetakjörs Bandaríkjanna sem hefst á næsta ári.

Talsmaður Trumps hefur sagt úrskurðinn „ólýðræðislegan“ og hefur heitið því að fara með málið fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna.

Talinn vera óhæfur frambjóðandi

Að mati dómstólsins í Colorado telst Trump vera óhæfur frambjóðandi vegna aðgerða sinna í kringum árás æstra stuðningsmanna hans inn í þinghús Bandaríkjanna í janúar 2021, en réttaráhrif úrskurðarins frestast þar til fjallað verður um áfrýjun hans 4. janúar næstkomandi. 

Í dómsúrskurði dómstólsins í Colorado segir að meirihluti dómstólsins telji Trump vanhæfan til að gegna embætti forseta.

Þar segir jafnframt að vegna þess að Trump sé vanhæfur myndi það stangast á við kosningalög ef innanríkisráðherra Colorado-ríkis ákvæði að skrá hann sem frambjóðanda í prófkjöri forsetakosninganna.

Kjósendur mótmæltu fyrri úrskurði

Ákvörðunin leit dagsins ljós í kjölfar þess að hópur kjósenda mótmælti fyrri úrskurði dómstólsins þess efnis að sem frambjóðandi til forsetaembættisins hefði skýr þátttaka Trumps í óeirðunum í janúar 2021 ekki staðið í vegi fyrir því að hann byði sig fram aftur. 

Sá úrskurður snérist um túlkun 14. viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar sem bannar þeim sem tekið hafa þátt í uppreisn eftir að hafa svarið eið í embætti, að gegna því embætti að nýju.

Lægri dómstóll hafði áður talið að viðaukinn gæti ekki átt við Trump vegna þess að forsetaembættið væri ekki hluti af lista yfir alríkiskjörnar stöður sem féllu undir viðaukann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert