Segir fórnarkostnað Ísraelsmanna mikinn

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael. AFP

Stríðinu á Gasaströndinni fylgir „afar þungur kostnaður“ fyrir Ísraelsmenn, að sögn Benjamíns Netanjahús, forsætisráðherra Ísraels en hann vill samt meina að Ísrael hafi engra kosta völ en að halda áfram að slást.

Herinn segir í tilkynningu að á þriðja tug hermanna hafi verið drepnir á svæðinu frá því á föstudag, sem gerir heildarmannsfallið 154 frá því að landhernaður hófst. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Gærdagurinn var einn sá mannskæðasti í stríðinu en Netanjahú sagði á fundi stríðsráðs Ísraels í dag að Ísraelsmenn hefðu engra kosta völ en að halda áfram að berjast.

„Þetta verður langt stríð“

Þegar hann ræddi um fjölda fallinna hermanna seinasta sólarhrings sagði Netanjahú: „Þetta er erfiður morgunn, eftir afar erfiðan átakadag á Gasa.“

Hann bætti þó við að herinn myndi halda áfram af fullum krafti og ítrekaði áform sín um að útrýma Hamas og tryggja lausn gíslanna á Gasasvæðinu. 

„Höfum það á hreinu: Þetta verður langt stríð,“ sagði forsætisráðherrann.

Í ótengdri yfirlýsingu frá því í dag sagðist herinn hafa drepið samtals um 8.000 palestínska vígamenn í stríðinu.

Á sama tíma segja heilbrigðisyfirvöld á Gasaströndinni, sem eru undir stjórn Hamas-hryðjuverkasamtakanna, að 166 manns hefðu verið drepnir á síðasta sólarhring og 20 þúsund manns verið drepnir á Gasaströndinni, auk 54 þúsund særðra. Þá sé megni látinna óbreyttir borgarar.

Þá voru 1.139 drepnir í árás Hamas þann 7. október. Óbreyttir borgarar að megni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert