Austuríska lögreglan hefur handtekið þrjá einstaklinga sem grunaðir eru um að hafa tengsl við öfgasamtök íslamista. Öryggisgæsla í Vín og þýsku borginni Köln hefur verið hert vegna hryðjuverkaógnar yfir hátíðirnar.
Leitað var í dómkirkjunni í Köln í gærkvöldi og í dag þurfa þeir sem ætla í kirkjuna að fara í gegnum öryggiseftirlit áður en þeir fara inn í hana. Lögregluyfirvöld í Vín greindu frá því í gær að öryggisgæsla yrði hert í borginni, sérstaklega við kirkjur og jólamarkaði.
Talsmaður innanríkisráðuneytis Austurríkis sagði í yfirlýsingu í dag að fjórir hafi verið handteknir í gær vegna tengsla við öfgasamtök. Þrír eru enn í haldi á meðan rannsókn stendur yfir.
„Ekki var um aðkallandi hótun í Vín að ræða,“ sagði talsmaðurinn í samtali við AFP-fréttaveituna.
Þýska tímaritið Bild greindi frá því að einn hafi verið handtekinn þar í landi vegna málsins.
Miðilinn greinir frá því að þeir sem hafa verið handteknir eru tadsjikar sem eru liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Isis-K.