Írska lögreglan í Dublin hefur aukið viðveru lögreglumanna í borginni í kjölfar skotárásar í gærkvöldi þar sem einn maður lést og annar var særður. Átti árásin sér stað á veitingastað og urðu börn vitni að ódæðinu.
Árásin átti sér stað á veitingastaðnum Browne's Steakhouse um klukkan átta að staðartíma á aðfangadagskvöld, að því er breska ríkisútvarpið greinir frá.
Verið er að rannsaka hvort maðurinn sem lést hafi mögulega verið þátttakandi í árásinni en það er ekki vitað að svo stöddu. Maðurinn sem lést var á þrítugsaldri en hinn maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, er alvarlega særður vegna skotsára.
Lögreglan telur að atvikið tengist glæpahópum og þá sérstaklega yfirstandandi eiturlyfja- og byssutengdum deilum þeirra á milli, að því er írska ríkisútvarpið greinir frá. Enginn hefur verið handtekinn að svo stöddu.