Drápu háttsettan íranskan hershöfðingja

Razi Moussavi var háttsettur íranskur herforingi sem lést í loftárásum …
Razi Moussavi var háttsettur íranskur herforingi sem lést í loftárásum Ísraelshers í Sýrlandi í dag. AFP

Háttsettur íranskur hershöfðingi var á meðal þeirra sem létust í kjölfar loftárárásar Ísraelshers á úthverfi Damaskus, höfuðborgar Sýrlands, í dag. 

Hershöfðingjanum, Razi Moussavi, hefur verið lýst sem einum reyndasta ráðgjafa „Quods Force,“ erlenda arms íslömsku byltingarvarðarsveitarinnar (IRGC), og er atvikið því talið ýta enn frekar undir átökin sem geisa fyrir botni Miðjarðarhafs. 

Forseti Írans hótar hefndum

Ebrahim Raisi, forseti Írans, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar dauða hershöfðingjans.

Í yfirlýsingunni vottaði hann samúð sína vegna dauða Moussavi, en vakti jafnframt athygli á því að Ísrael kæmi til með að borga fyrir þennan glæp. 

„Hershöfðinginn var drepinn í árás síonistastjórnarinnar fyrir nokkrum klukkustundum í Zeinabiyah hverfi í úthverfum Damaskus,“ er haft eftir fréttastofunni IRNA í umfjöllun frönsku fréttaveitunnar AFP, en þar segir einnig að Moussavi hafi verið virkur í andspyrnuhreyfingu IRCG gegn Ísrael. 

Íran viðurkennir ekki Ísrael

Í kjölfar árásar Hamas-samtakanna á Ísrael þann 7. október síðastliðinn hefur íslamska lýðveldið, sem veitir Hamas fjárhagslegan og hernaðarlegan stuðning, fagnað árásunum sem „vel heppnuðum“ en þó neitað allri aðkomu að þeim. 

Íran viðurkennir Ísrael ekki og hefur stuðningur íranska ríkisins við málstað Palestínu verið hornsteinn í utanríkisstefnu þess í áratugi. 

Ísraelar, sem sjaldan tjá sig um loftárásir sínar í Sýrlandi, hafa þó margoft sagt að þeir hyggist ekki leyfa erkióvininum í Íran að auka umfang sitt innan Sýrlands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert