Loftárás á aðfangadag: „Við erum öll skotmörk“

Talið er líklegt að tala látinna muni hækka.
Talið er líklegt að tala látinna muni hækka. AFP/Said Khatib

Að minnsta kosti 70 létust í Al-Maghazi flóttamannabúðunum eftir loftárás Ísraelshers á miðhluta Gasa á aðfangadagskvöld, að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasa, sem stjórnað er af Hamas-hryðjuverkasamtökunum.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir talsmanni sínum að líklegt sé að tala látinna muni hækka í ljósi þess hve þéttbýlt svæðið er.

Tugir særðra voru fluttir á Al-Aqsa sjúkrahúsið. Talið er að þrjár byggingar hafi skemmst í árásinni, þar á meðal fjölbýlishús.

Missti dóttur sína og barnabörn

Maður sem missti dóttur sína og barnabörn sagði að fjölskyldan hefði flúið úr norðri til miðhluta Gasa í leit að meira öryggi.

„Þau bjuggu á þriðju hæð í einni af byggingunum. Barnabörnin mín, dóttir mín, eiginmaður hennar – öll farin,“ sagði hann.

„Við erum öll skotmörk. Óbreyttir borgarar eru skotmörk. Það er enginn staður öruggur.“

Frá borginni Rafah í suðurhluta Gasa á aðfangadag.
Frá borginni Rafah í suðurhluta Gasa á aðfangadag. AFP/Said Khatib

Fengu tilkynningar um atvik

Í yfirlýsingu Ísraelshers til BBC sagði að honum hefði borist „tilkynningar um atvik“ í Al-Maghazi flóttamannabúðunum.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sagði í ræðu sinni í gær að stríðið hafi reynst Ísrael dýrkeypt.

Alls hafa 154 ísraelskir hermenn látist í átökunum samkvæmt gögnum Ísraelshers til viðbótar við þá 1.139 sem drepnir voru í árás Hamas þann 7. október. Síðan þá hafa 20 þúsund íbúar á Gasa verið drepnir í árásum Ísraelshers, að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert