Palestínsku hryðjuverkasamtökin Hamas og hryðjuverkasamtökin Heilagt stríð eru sögð hafa hafnað tillögu Egypta um varanlegt vopnahlé gegn því að Hamas myndi gefa upp stjórnvölinn á Gasasvæðinu og efna til kosninga.
Reuters greinir frá en fréttamiðillinn kveðst hafa þetta eftir tveimur egypskum heimildarmönnum.
Hamas hafna þessum fréttum.
Heimildarmennirnir segja að bæði Hamas og Heilagt stríð, sem hafa átt í aðskildum viðræðum við egypska sáttasemjara í Kaíró, hafi hafnað öllum mögulegum boðum til að ná fram vopnahléi umfram því að leysa hugsanlega úr haldi fleiri gísla sem hryðjuverkamenn tóku þann 7. október þegar þeir réðust inn í Ísrael og drápu um 1.200 manns.
Egyptaland lagði fram „sýn“ frekar en áþreifanlega áætlun, einnig studd af sáttasemjara frá Katar, sem myndi fela í sér vopnahlé í skiptum fyrir lausn fleiri gísla og leiða til víðtækara samkomulags sem felur í sér varanlegt vopnahlé ásamt endurskoðun á forystunni á Gasa.
Egyptar lögðu einnig til að haldnar yrðu kosningar, en ekki hafa verið haldnar kosningar á Gasa síðan árið 2006. Gegn því yrði tryggt að Hamas-liðar yrðu ekki sóttir til saka, en Hamas á að hafa hafnað því.
Izzat al-Rishq, fulltrúi hjá Hamas, segir í tilkynningu að það yrðu engar samningaviðræður fyrr en að Ísrael hættir hernaðaraðgerðum sínum.
„Hamas-forystan stefnir af öllu afli að algjörum, ekki tímabundnum, endi á yfirgangi og fjöldamorðum fólks okkar,“ sagði hann.
Tímabundið vopnahlé komst á átökin í síðasta mánuði en rann út 1. desember eftir að ekki tókst að framlengja vopnahléið.
Hamas neitaði meðal annars að sleppa fleiri kvenkyns gíslum, að sögn ísraelskra stjórnvalda og talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, Matthew Miller, sagði seinna meir að Hamas hefði neitað því að sleppa fleiri kvenkyns gíslum, líklegast vegna þess hvernig þeir hefðu farið með konurnar í haldi.