Segja að Depardieu hafi verið „hengdur“

Franski leikarinn Gerard Depardieu.
Franski leikarinn Gerard Depardieu. AFP

Tæplega 60 franskir leikarar og aðrar opinberar persónur hafa fordæmt „hengingu“ franska leikarans Gerard Depardieu.

Depardieu var ákærður fyrir nauðgun árið 2020 og hefur þrettán sinnum verið sakaður um kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi. Í september bættist við enn ein kæran á hendur leikaranum, sem neitar sök.

„Gerard Depardieu er líklega bestur allra leikara,“ segir í opnu bréfi sem birt var í franska dagblaðinu Le Figaro í gær.

Meðal þeirra sem hafa skrifað undir bréfið eru breska leikkonan Charlotte Rampling, franska söngkonan Carla Bruni og franski leikarinn Pierre Richard.

Segja þjóðina skulda Depardieu

„Við getum ekki lengur þagað yfir slaufuninni sem hann stendur frammi fyrir. Frakkland skuldar honum svo mikið,“ segir meðal annars í bréfinu.

Depardieu hefur sætt mikilli gagnrýni eftir að sjónvarpsstöðin France 2 sýndi frá ferð leikarans árið 2018 til Norður-Kóreu. Þar viðhafði hann kynferðisleg ummæli við kvenkyns túlk og sagði kynferðislega hluti um smástelpu á hesti.

Depardieu er talinn til stærstu nafna franskrar leiklistar og hefur hann leikið í ríflega 200 kvikmyndum.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í síðustu viku að Depardieu hefði orðið skotmark „mannaveiða“. Réttindasinnar hafa fordæmt ummæli forsetans og segja þau móðgun við allar konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert