SÞ: Alvarlegar áhyggjur af árásum Ísraelshers

Palestínumenn halda á líkum hins 17 ára Ahmads Yaghi, og …
Palestínumenn halda á líkum hins 17 ára Ahmads Yaghi, og Ibrahims al-Titis, sem var 31 árs, í jarðarför þeirra tveggja. Þeir létust í árás Ísraelshers á al-Fawwar- flóttamannabúðirnar. AFP/Hazem Bader

Talsmaður Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna segist hafa „alvarlegar áhyggjur“ af árásum Ísraelshers á Gasasvæðinu. Hann hvetur herinn til þess að gera allar mögulegar ráðstafanir til að vernda almenna borgara.

„Við höfum alvarlegar áhyggjur af áframhaldandi sprengjuárásum Ísraelshers á miðhluta Gasasvæðisins,“ segir talsmaður mannréttindafulltrúa, Seif Mangango, í tilkynningu.

„Það er sérstakt áhyggjuefni að þessar síðustu og miklu sprengjuárásir komi í kjölfar þess að Ísraelsher skipaði íbúum sunnan Wadi-Gasa að flytja til miðhluta Gasa og Tal al-Sultan í Rafag.“

Árásir Ísraela á flóttamannabúðir

Heilbrigðisráðuneyti Hamas-stjórnar í Palestínu hefur sagt að loftárásir Ísraelsmanna hafi drepið að minnsta kosti 70 manns í Al-Maghazi-flóttamannabúðunum á sunnudaginn.

Ísraelsher hafi einnig gert 50 atlögur með loftárásum í gær, þar á meðal á Nuseirat-flóttamannabúðirnar. Mangango segir að slíkt mannfall eftir loftárásir auki á „vaxandi og þegar hörmulegt mannúðarástand“.

Hann segir að vegir að flóttamannabúðunum hafi verið skemmdir. Það komi í veg fyrir að mannúðaraðstoð nái til þeirra sem þurfi nauðsynlega á henni að halda. Skýli og spítalar starfi af lágmarksgetu og séu hættulega yfirfull og undirfjármögnuð.

Mangango ítrekar að allar árásir þurfi að fara eftir alþjóðalögum um mannréttindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka