Emmanuel Macron, forseti Frakklands, krafðist varanlegs vopnahlés á Gasa í símtali sem hann átti við Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í dag.
Frá þessu er greint í yfirlýsingu frá franska forsetaembættinu.
Mannúðarkrísan á Gasa fer vaxandi samhliða stöðugum árásum Ísraelshers, sem segist ætla sér að uppræta Hamas-hryðjuverkasamtökin.
„Frakkar munu vinna á næstu dögum í samvinnu við Jórdaníu að því að framkvæma mannúðaraðgerðir á Gasa,“ segir enn fremur í yfirlýsingu frá Macron.
Macron lagði áherslu á mikilvægi aðgerða til að binda enda á ofbeldi ísraelskra landnema gegn palestínskum borgurum á hernumdum Vesturbakkanum og koma í veg fyrir nýjar fyrirhugaðar landnemabyggðir.
Yfir 21 þúsund hafa verið drepnir í árásum Ísraelsmanna, aðallega konur og börn, að sögn heilbrigðisráðuneytis Hamas á Gasasvæðinu.