Þrjú féllu í loftárás Ísraelshers á landamærabæ í Líbanon í gærkvöldi, vígamaður Hisbollah-samtakanna, eiginkona hans og bróðir. Þá særðist einn ættingi þeirra.
Talsverð átök hafa verið milli Ísraleshers og vígamanna Hisbollah frá því að stríð Ísraels og Hamas-hryðjuverkasamtakanna hófst þann 7. október.
Ísraelsher gerði loftárás á hús í bænum Bint Jbeil skammt frá landamærunum við Ísrael. Þar bjó vígamaður Hisbollah, Ali Bazzi, ásamt eiginkonu sinni Shourouk Hammoud, en bróðir hans, Ibrahim, var í heimsókn hjá þeim. Ibrahim var ástralskur ríkisborgari.
Ísraelsmenn hafa reynt að hrekja vígamenn Hisbollah lengra frá landamærunum norður fyrir ána Litani, sem er um 30 kílómetrum frá Ísrael.
Fleiri en 150 manns hafa fallið í Líbanon í átökunum. Flestir þeirra voru vígamenn Hisbollah en þar voru líka á annan tug almennra borgara, þar af þrír blaðamenn.
Sunnan landamæranna hafa minnst fjórir ísraelskir borgarar og níu hermenn fallið í árásum Hisbollah.