Vísar ásökunum um kynferðisbrot á bug

Hitoshi Matsumoto, sem verið hefur hálfgert húsgagn á japönskum heimilum …
Hitoshi Matsumoto, sem verið hefur hálfgert húsgagn á japönskum heimilum sem helmingur tvíeykisins Downtown allar götur síðan 1982, er borinn sökum um kynferðisbrot í umfjöllun vikuritsins Shukan Bunshun. Ljósmynd/Wikipedia.org/Saya Zamurai

Einn annálaðasti skemmtikraftur Japans vísar áburði um kynferðisbrot til föðurhúsanna í viðtali við vikuritið Shukan Bunshun í dag og kveður engar staðreyndir hafa verið settar fram í því sem honum er borið á brýn í máli sem vakið hefur almenningsathygli í Japan.

Hitoshi Matsumoto skipar hálft tvíeykið Downtown (j. Owarai) þar sem hinn helmingurinn er Masatoshi Hamada og hafa þeir félagar fyrir margt löngu unnið sér sess sem heimilisvinir japanskra sjónvarpsáhorfenda síðan þeir hófu feril sinn árið 1982.

Boða málaferli

Raunar er það talsmaður Matsumoto hjá umboðsskrifstofu hans, Yoshimoto Kogyo sem hefur orð fyrir honum í viðtalinu við Bunshun – sem er þó aðeins hluti umfjöllunar um málið – þar sem hann boðar málaferli vegna aðdróttananna en tvær konur bera skemmtikraftinum á brýn að í einkasamkvæmi á hóteli í Tókýó árið 2015 hafi hann þröngvað þeim til kynferðisathafna en Matsumoto stóð þá á sextugu.

Kveður önnur konan Matsumoto hafa neytt hana til munnmaka en hin segir hann hafa kysst hana með valdi. Segir talsmaður umboðsskrifstofunnar viðtal Bunshun grafa alvarlega undan félagslegum orðstír skemmtikraftsins og hafi stofan látið í veðri vaka áður en umfjöllun ritsins birtist að hún hygðist leita réttar Matsumoto fyrir dómstólum.

Johnny-málið skók Japan

Að sögn AFP-fréttastofunnar neitar umboðsskrifstofan að tjá sig frekar um mál Matsumoto en það er ekki það fyrsta sem Shukan Bunshun flettir ofan af. Frægt varð um gervallt Japan þegar Bunshun greindi fyrst fjölmiðla frá því árið 1999 að umboðsskrifstofan Johnny & Associates misnotaði unga pilta sem hygðust reyna fyrir sér sem svokallaðir „Johnnys“, ungir tónlistarmenn sem stofan sendi upp á japanskan stjörnuhimin, gjarnan með óafturkræfu sálrænu tjóni.

Féll sú umfjöllun fljótt í gleymskunnar dá, en í september í ár, 24 árum síðar, fór skemmtanaiðnaður Japans á hliðina í hneykslismáli sem afhjúpaði áratuglanga sögu kynferðisbrota í starfsemi og ráðningarsögu Johnny & Associates.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert