Myrti móður sína en er nú laus úr fangelsi

Mæðgurnar Gypsy Blancharde og Dee Dee Blancharde fyrir allmörgum árum, …
Mæðgurnar Gypsy Blancharde og Dee Dee Blancharde fyrir allmörgum árum, en Gypsy er orðin 32 ára.

Gypsy Rose Blanchard sem hlaut tíu ára dóm fyrir að myrða móður sína hefur verið sleppt úr fangelsi. 

Árið 2015 fannst lík Clauddinneu Blanchard, móður Gypsy, á heimili þeirra mæðgna í Missouri-ríki Bandaríkjanna. Nicholas Godejohn, þáverandi kærasti Gypsy Rose, aðstoðaði hana við ódæðið. 

Parið fannst síðar í Wisconsin í  Bandaríkjunum þar sem þau voru handtekin. Kærastinn Nicholas var dæmdur í lífstíðarfangelsi án lausnar, en hann stakk móður Gypsy til dauða.

Gypsy var einungis dæmd í tíu ára fangelsi þrátt fyrir að hafa skipulagt morð móður sinnar ásamt Nicholas. Nú hefur hún verið látin laus úr haldi þremur árum á undan áætlun. 

Sagði dóttur sína fárveika

Málið vakti mikla undrun og athygli vestanhafs ekki síst fyrir þær sakir að móðir Gypsy var sögð hafa logið upp á dóttur sína og sagt hana þjást af fjölda kvilla, þá meðal annars flogaveiki og hvítblæði.

Streymisveitan Hulu gerði þætti um mæðgurnar undir nafninu „The Act“, en fyrir hlutverk sitt í þáttunum sem móðir Gypsy hlaut leikkonan Patricia Arquette Emmy-verðlaun.

Gypsy þurfti að undirgangast ýmsar aðgerðir sem engin þörf var á, en ásamt því var hún látin notast við hjólastól og neyta fæðu í gegnum slöngu. 

Fyrir vikið hafði móðir Gypsy stjórn á öllu lífi dóttur sinnar. Hún var atvinnulaus en þáði bætur frá ríkinu fyrir hönd dóttur sinnar. 

Þær mæðgur flugu víðs vegar um Bandaríkin til þess að sækja hina ýmsu viðburði og nutu góðs af meintum veikindum Gypsy.

Iðulega greiddu góðgerðasamtökin Make-a-Wish ferðakostnaðinn og í kjölfarið komust þær í návígi við ýmsa þekkta einstaklinga vestanhafs. 

Enn fremur var Gypsy látin halda tölu um ástand sitt og erfiðleikana sem fylgdu meintum veikindum á góðgerðaviðburðum sem þær mæðgur sóttu. 

Fargaði samskiptatækjum dóttur sinnar

Vinkona Gypsy segir í samtali við ABC-fréttastofuna að þær hafi rætt reglulega mál tengd hinu kyninu, þar sem Gypsy spurði vinkonu sína um ráð. 

Þegar móðir Gypsy komst að þessu kvennahjali fargaði hún fartölvu og síma dóttur sinnar svo hún gæti ekki lengur átt í samskiptum við vinkonu sína. 

Þá sagði Gypsy að móðir hennar hefði beitt hana ofbeldi og rifjaði upp atvik þar sem hún sló sig með herðatré. 

Enn fremur sagði hún móður sína hafa stundum bundið sig við rúmið sitt og komið fyrir viðvörunarbjöllum á hurðinni að herberginu hennar.

Árið 2017 sagði Gypsy í viðtali við ABC að líf hennar í fangelsinu hefði verið frjálsara en heimilislífið með móður sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert