Flutningabílar með hjálpargögn urðu fyrir árás Ísraelshers á leið frá norðurhluta Gasa. Frá þessu greinir Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA). Enginn særðist í árásinni.
„Ísraelskir hermenn skutu á bílalest þegar hún sneri til baka frá norðurhluta Gasa eftir vegi sem ísraelski herinn ákvað. Leiðtogi okkar og lið hans slösuðust ekki en eitt farartæki skemmdist,“ sagði Tom White, framkvæmdastjóri UNRWA.
Atvikið átti sér stað síðdegis í gær. Ísraelsher sagðist vera að rannsaka tilkynningar um atvikið.
Um 150 þúsund Palestínumenn hafa verið neyddir til að flýja miðhluta Gasa þar sem ísraelskir hermenn sækja að flóttamannabúðum á svæðinu.