Segja Breta búa sig undir sókn gegn Hútum

Skipa­fé­lagið Maersk hóf sigl­ing­ar á ný um Rauðahafið eft­ir að …
Skipa­fé­lagið Maersk hóf sigl­ing­ar á ný um Rauðahafið eft­ir að hafa hætt þeim tíma­bundið vegna árása upp­reisn­ar­hóps Húta í Jemen á flutn­inga­skip. AFP

Breski og banda­ríski her­inn búa sig und­ir að gera fjölda árása gegn upp­reisn­ar­mönn­um Húta á Rauðahafi. Þetta herma heim­ild­ir breska dag­blaðsins The Times. Hút­ar hafa valdið mikl­um usla með því að ráðast á eða leggja und­ir sig skip sem eiga leið um hafið.

Sam­kvæmt Times myndi Bret­land ganga til liðs við Banda­rík­in og hugs­an­lega önn­ur Evr­ópu­lönd og að hleypa af flug­skeyta­hríð annað hvort á Rauðahafi eða í Jemen, þar sem upp­reisn­ar­menn Húta hafa bækistöðvar.

Greint var frá því í dag að danskt frakt­skip frá Maersk hefði orðið fyr­ir tveim­ur árás­um á ein­um sól­ar­hring af hönd­um upp­reisn­ar­manna Húta í Jemen.

Síðasta viðvör­un­in

Hút­ar hafa ít­rekað skotið eld­flaug­um og sigað árás­ar­drón­um á flutn­inga­skip sem eiga leið um Rauðahafið. Að sögn Banda­ríkja­hers er þetta í 23. skiptið sem Hút­ar gera árás­ir á flutn­inga­skip síðan 19. nóv­em­ber.

Times hef­ur eft­ir heim­ild­ar­manni sín­um sem vinn­ur náið með rík­is­stjórn­inni að her­inn gæti not­ast við herþotur og HMS-Diamond her­skip í árás­inni.

Miðill­inn seg­ir að á næstu klukku­stund­um megi bú­ast við for­dæma­lausri yf­ir­lýs­ingu frá Banda­ríkj­un­um og Bretlandi, þar sem Hút­ar verði varaðir við því að ráðast á bát­ana – ann­ars sé herj­um vest­ur­landa að mæta. Heim­ildamaður Times seg­ir yf­ir­lýs­ing­una vera „síðustu viðvör­un­ina“.

„Ef Hút­arn­ir halda áfram að ógna manns­líf­um og viðskipt­um, mun­um við vera neyðast til þess að grípa til nauðsyn­legra og viðeig­andi aðgerða,“ sagði Grant Shapps, varna­málaráðherra Breta, fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert