Danir í áfalli eftir ávarp drottningar

Margrét Þórhildur í september síðastliðnum.
Margrét Þórhildur í september síðastliðnum. AFP/Bo Amstrup

Áramótin voru erfið fyrir marga Dani eftir að Margrét Þórhildur Danadrottning tilkynnti um afsögn sína er hún ávarpaði þjóð sína á gamlársdag.

AFP fréttaveitan ræddi við nokkra Dani um valdaskiptin sem verða 14. janúar.

„Vægast sagt gæsahúð. Þetta var ákveðið högg,“ sagði Stefan Teichert sem er 30 ára. Hann ásamt mörgum öðrum Dönum fylgdust með ávarpi drottningar í beinni útsendingu í danska sjónvarpinu.

Gamlárskvöldi skyldi aflýst

Margrét Þórhildur er 83 ára og er mjög vinsæl á meðal dönsku þjóðarinnar. Í niðurstöðum nýlegrar könnunar kom í ljós að 80% Dana styðji hana. Hún hefur í gegnum árin sagt að hún myndi aldrei stíga til hliðar sem drottning.

„Við vorum öll í áfalli. Við sögðum: „Hvað? Aflýsum gamlárskvöldi!“,“ sagði Maria Jespersen. „Þetta var eins og einhver hefði dáið í fjölskyldunni.“

Hinn 21 árs gamli Rasmus Eliassen var sammála Jespersen en kaus að líta á björtu hliðarnar vegna tilkynningar drottningarinnar.

„Það er gaman að hún sé ekki að hætta vegna þess að hún sé dáin,“ sagði Eliassen. Hann sagði Danmörku vera í góðum höndum hjá verðandi konungi, Friðriki krónprins.

Friðrik krónprins og móðir hans, Margrét Þórhildur Danadrottning, í október …
Friðrik krónprins og móðir hans, Margrét Þórhildur Danadrottning, í október á síðasta ári. AFP/Mads Claus Rasmussen

Tákn Danmerkur

Krónprinsinn verður krýndur Friðrik X. Danakonungur 14. janúar. Ekki verða nein sérstök hátíðarhöld vegna valdaskiptanna.

Mette Frederiksen forsætisráðherra mun kynna konunginn nýja eftir að krúnuskiptin fara fram á sérstökum ríkisstjórnarfundi. Frederiksen sagði í gær að Margrét væri tákn Danmerkur.

„Mörg okkar hafa aldrei þekkt annan þjóðhöfðingja. Í gegnum árin hefur hún tjáð orð okkar og tilfinningar fyrir land og þjóð,“ sagði Frederiksen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka