Hizbollah-samtökin í Íran segja að drónaárás Ísraelsmanna í Beirút, þar sem næstráðandi Hamas var felldur, verði ekki látin afskiptalaus. Sex manns létust í árásinni samkvæmt líbönskum miðlum.
Hizbollah kalla árásina „alvarlega árás gegn Líbanon“.
„Við, Hizbollah, lýsum því yfir að þessi glæpur verður ekki látinn afskiptalaus eða órefsaður,“ sögðu samtökin í yfirlýsingu, þar sem árásin var kölluð „hættuleg þróun“ á stríðinu fyrir botni Miðjarðarhafs.
Sex manns voru felldir í drónaárás Ísraels í Beirút, höfuðborg Líbanons, í dag, þar á meðal Saleh al-Aruri, næstráðandi Hamas-hryðjuverkasamtakanna. Forsætisráðherra Palestínu hefur fordæmt árásina.
Hizbollah hafa nánast daglega átt í átökum við Ísrael frá því að stríðið hófst þann 7. október.
Greint var frá því í desember að Razi Moussavi, hershöfðingi erlenda arms Quds-sveitarinnar, hefði verið drepinn í loftárás Ísraelshers á úthverfi Damaskus, höfuðborgar Sýrlands, í dag. Íranska ríkisstjórnin hefur lýst yfir stuðningi við Hizbollah.
Hizbollah segja að árásin sem Aruri féll í hafi verið gerð „í framhaldinu af… morðinu á Razi Moussavi“. Hassan Nasrallah, leiðtogi Hizbollah, er sagður ætla flytja ræðu á morgun, miðvikudag.