Fannst látin í bifreið

Kona fannst látin í bifreið í Elverum aðfaranótt gærdagsins og …
Kona fannst látin í bifreið í Elverum aðfaranótt gærdagsins og var maður, sem einnig var þar til staðar, alvarlega sár og lést af sárum sínum í gær. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Maður var handtekinn í Elverum í Innlandet-fylki í Noregi í kjölfar líkfundar í bifreið þar í bænum aðfaranótt gærdagsins en þar reyndist þrítug kona hafa verið skotin til bana. Fannst maðurinn, sem grunaður var um að hafa misgert við konuna, í sömu bifreið, við sjúkrahúsið í Elverum, og reyndist alvarlega sár. Var honum komið undir læknishendur á sjúkrahúsinu með hraði þar sem hann lést í gær.

Frá þessu greinir lögreglan í suðausturumdæminu í fréttatilkynningu. Á mánudagskvöld, laust fyrir klukkan 22 að norskum tíma, hafði ættingi konunnar samband við lögreglu og kvaðst óttast um hana. Höfðu þau verið saman í heimsókn á sjúkrahúsinu og hún ætlað að skreppa út í bíl til að ná í eitthvað en ekki skilað sér til baka.

Dauðvona er lögregla kom að

Hóf lögregla þegar leit sem lyktaði með því að fólkið fannst í bifreiðinni, konan látin sem fyrr segir en maðurinn, sem var á fertugsaldri, hafði áverka eftir nokkrar byssukúlur. Upplýsir Henning Klauseie, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni í suðausturumdæminu, að maðurinn hafi verið dauðvona þegar er lögregla kom að honum í bifreiðinni.

Maðurinn og konan eru bæði með skráð heimilisföng í Ósló og eiga sér sögu. Í apríl í fyrra var manninum dæmt nálgunarbann gagnvart konunni og braut samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Ósló ítrekað gegn því.

Lögfræðingur fjölskyldu konunnar, sem norska ríkisútvarpið NRK ræddi við, segir hana ítrekað hafa beðið um neyðarhnapp auk úrræðis sem á norsku kallast omvendt voldsalarm, eða viðsnúið/öfugt viðvörunarkerfi sem nýlega hefur verið tekið í gagnið í Noregi. Ber sá sem nálgunarbanni sætir þá ökklaband með staðsetningarbúnaði sem sendir boð til lögreglu, og þess sem lifir í skjóli bannsins, reynist ökklabandið svo nærri að bannið teljist brotið.

„Hún bjó við stöðugan ótta vegna háttsemi [mannsins] án þess að það leiddi til nokkurra viðbragða lögreglu,“ segir lögfræðingurinn við NRK og bætir því við að hér sé því ekki um annað að ræða en manndráp sem boðað hefði verið fyrir fram, varslet drap eins og viðmælandinn orðar það.

Kom fyrir staðsetningarbúnaði

Lögregla kveðst hafa fundið skotvopn á vettvangi sem hún telur hafa verið beitt og staðfestir Marthe Notøy, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni í Ósló, að mál fólksins, sem átti í stuttu ástarsambandi fyrir ári, hafi verið til rannsóknar auk brota mannsins gegn nálgunarbanninu. Maðurinn mun einnig hafa haft í hótunum við aðra konu, sem hann átti í sambandi við áður.

Segir Notøy manninn ítrekað hafa komið staðsetningarbúnaði fyrir á bifreið konunnar sem nú er látin og gefið þær skýringar að hann hafi með því ætlað að firra sig ábyrgð með því að geta sýnt fram á að hann hafi verið annars staðar ef til þess kæmi að skemmdarverk yrðu unnin á bifreiðinni og honum kennt um.

Enn fremur staðfestir hún að konan hafi ekki fengið neins konar viðvörunarbúnað gegn manninum. „Hluti rannsóknarinnar snerist um hvort skilyrði til slíks væru til staðar. Það er réttarins að taka ákvörðun um það,“ segir Notøy.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert