Andrés Bretaprins nefndur í Epstein-skjölum

Jeffrey Epstein og Ghislaine Maxwell.
Jeffrey Epstein og Ghislaine Maxwell. AFP

Andrés Bretaprins er á meðal fjölmargra þekktra persóna sem eru nefndar í nýbirtum dómsskjölum þar sem greint er frá fólki sem tengdist kynferðisbrotamanninum og auðjöfrinum Jeffrey Epstein.

Bandarískur dómari fyrirskipaði að upplýsingarnar skyldu birtar í tengslum við málshöfðun sem tengist Ghislaine Maxwell sem þegar hefur verið dæmd í 20 ára fangelsi fyrir að aðstoða Epstein.

Í dómsskjölunum er meðal annars fjallað um áður birta ásökun um kynferðisbrot af hálfu Andrésar, sem hann hefur vísað á bug.

Á meðal annarra sem eru nefndir á nafn í dómsskjölunum eru Bill Clinton og Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforsetar, en hvorugur þeirra er sakaður um lögbrot.

Andrés Bretaprins.
Andrés Bretaprins. AFP/Adrian Dennis

Dómsskjölin eru um 900 blaðsíður og virðast þau ekki hafa afhjúpað neitt stórt í tengslum við Epstein, að sögn BBC

Samt sem áður er búist við því að fleiri skjöl verði birt í tengslum við málið á næstu dögum.

Sumir þeirra yfir 100 sem eru nefndir á nafn í skjölunum eru sakaðir um að hafa brotið af sér á meðan aðrir leggja fram ásakanir eða eru möguleg vitni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert