Fyrstu þrjá daga ársins 2024 hafa Norðmenn mátt hlýða á fréttir af tvöfalt fleiri sem látið hafa lífið með voveiflegum hætti í þremur manndrápsmálum. Sex manns hafa þannig týnt lífi sínu – þar af fjórir af völdum annarra en líklegt þykir að tveir hafi fallið fyrir eigin hendi.
Fyrsta manndrápsfrétt ársins, á nýársdag, fjallaði um par á fimmtugsaldri og nítján ára gamlan son fólksins sem fundust látin á sjötta tímanum um morguninn að norskum tíma í Sørfold í Nordland-fylki. Hafði lögreglu borist tilkynning klukkan 04.52 um að eitthvað alvarlegt væri á seyði í íbúð þar og brutu lögreglumenn sér leið inn í íbúðina er þeir komu á vettvang.
Auk hinna þriggja látnu voru tvö ung börn í íbúðinni og bar annað þeirra áverka eftir hníf. Var það flutt með þyrlu á sjúkrahús í Bodø þar sem gert var að sárum þess.
Studdist lögregla í fyrstu við nokkrar kenningar um hvað gerst hefði en nú þykir henni einsýnt að ungi maðurinn hafi myrt báða foreldra sína með eggvopninu, sært annað barnið og tekið að lokum eigið líf.
Aðfaranótt 2. janúar fannst kona skotin til bana í bifreið við sjúkrahúsið í Elverum í Innlandet-fylki og maður illa haldinn af skotsárum hjá henni en þau veitti hann sér líkast til sjálfur. Hann lést af sárum sínum er leið á morguninn og kom fljótlega í ljós er lögregla hóf rannsókn sína að maðurinn hafði sætt nálgunarbanni gagnvart konunni en þau höfðu átt í skammvinnu sambandi í fyrravor.
Hafði maðurinn rofið nálgunarbannið ítrekað og konan oftsinnis sótt um það til lögreglu að honum yrði úrskurðað ökklaband sem er hluti af nýju viðvörunarkerfi í nálgunarbannsmálum sem tekið hefur verið í notkun. Lögregla brást ekki við þessu eins og mbl.is greindi frá í gær.
Annan janúar fluttu norskir fjölmiðlar svo fréttir af manni á sextugsaldri sem fannst myrtur í íbúð í Stavern, skammt frá Larvik í Vestfold-fylki í Suður-Noregi. Höfðu ættingjar mannsins haft samband við lögreglu eftir að ekkert hafði til hans spurst um hríð og reyndist raunin þá vera sú sem fyrr greinir.
Kona á fimmtugsaldri er grunuð um verknaðinn en hana hefur lögregla ekki fundið enn sem komið er þrátt fyrir mikla leit og íhugar nú að gefa út alþjóðlega eftirlýsingu.
Árið 2023 var ekki síður blóðugt í Noregi og kemst norska tölfræðin jafnvel í námunda við nágrannalandið Svíþjóð þar sem hrein skálmöld hefur geisað eins og mbl.is fjallaði ítrekað um á haustdögum nýliðnum. Í september höfðu yfir þrjátíu verið myrtir í Svíþjóð og 247 skotárásir verið gerðar á árinu.
Í Noregi voru fórnarlömbin 36 í 33 manndrápsmálum í fyrra. Í þremur málanna var um tvö manndráp að ræða og í einu málanna hefur enn sem komið er ekkert lík fundist.
Er árið 2023 það fyrsta síðan 2013 í Noregi þar sem fjöldi fórnarlamba í manndrápsmálum fer yfir 30 en árið 2013 var 41 myrtur í 39 málum. Árið 2022 voru 29 myrtir í 26 málum. Fimmtán málanna í fyrra snerust um makadráp og var karlmaður gerandi í tólf þeirra en kona í hinum þremur.
Í 28 málum var fórnarlömbunum ráðinn bani í heimahúsi, nítján karlmenn voru myrtir, sextán konur og eitt átta ára gamalt stúlkubarn. Ættingi eða manneskja sem fórnarlambið hafði náin tengsl við lá undir grun í yfir helmingi málanna, hnífar voru algengustu drápsvopnin og var þeim beitt í þrettán málum en skotvopnum í að minnsta kosti tíu málum.
NRK
NRKII (málið í Sørfold)
NRKIII (málið í Stavern)
Politiet.no (tölfræði Kripos yfir manndráp 2022)