Flugmennirnir um borð í flugvél Japan Airlines sem lenti í árekstri við flugvél japönsku strandgæslunnar sáu ekki vélina þegar áreksturinn varð.
Flugmennirnir þrír sáu heldur ekki eldinn úr flugstjórnarklefanum sem braust út eftir áreksturinn. Fengu þeir að vita af honum frá áhöfninni, að sögn talsmanns flugfélagsins.
Öllum 379 farþegum og áhöfn Japan Airlines var bjargað áður en flugvélin varð alelda og skrokkurinn hrundi á Haneda-flugvellinum í Tókýó, höfuðborg Japans.
Flugmennirnir segjast ekki hafa séð hina vélina. Einn þeirra segist þó hafa séð „hlut” rétt áður en áreksturinn varð, að sögn flugfélagsins.