Segja kæruna gegn Ísrael ekki byggja á staðreyndum

John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs.
John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Bandarísk stjórnvöld gagnrýna Suður-Afríku fyrir að kæra Ísrael fyrir brot á þjóðarmorðslögum. Málið verður tekið fyrir af Alþjóðadómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag í næstu viku.

Ísraelar hafa vísað ásökunum á bug og hafa Bandaríkin sömuleiðis tekið upp hanskann fyrir bandamenn sína.

„Þessi kæra er innihaldslaus, þjónar engum tilgangi og byggir ekki á staðreyndum,“ sagði John Kirby, öryggisráðgjafi Hvíta hússins, á blaðamannafundi.

Ekki léttvægar ásakanir

Matthew Miller, talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, segir að utanríkisráðuneytið sjái ekki „að svo komnu máli að um þjóðarmorð sé að ræða“.

„Þjóðarmorð eru auðvitað svívirðileg ódæðisverk,“ sagði Miller við blaðamenn. „Þetta eru ásakanir sem ættu ekki að vera léttvægar.“

Ísraelsmenn hafa neitað ásökunum Suður-Afríkumanna. Utanríkisráðuneyti Ísraels kallaði þær ærumeiðingar og vísaði til fornra samsærisverka gegn gyðingum.

Suður-Afríka, sem var eitt sinn aðskilnaðarríki, hefur oft gagnrýnt Ísrael og bent á hliðstæður á milli Ísraels og gömlu aðskilnaðarstefnu sinnar.

Samskipti Bandaríkjamanna rofin

Í kærunni heldur Suður-Afríka því fram að Ísraelsmenn hafi unnið að því að eyða Palestínumönnum á Gasaströndinni.

Samskipti Bandaríkjanna við Suður-Afríku hafa verið stirð þar sem stjórnvöld í Pretoríu hafa ekki viljað taka þátt í þrýstingi Vesturveldanna á Rússa vegna innrásar þeirra í Úkraínu.

Sendiherra Bandaríkjanna sakaði Suður-Afríku í fyrra um að senda vopnaskip til Rússlands, en utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna dró ásakanirnar til baka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka