Farþegaflugvél nauðlenti í Oregon í Bandaríkjunum í gær eftir að hluti úr farþegarými vélarinnar féll úr vélinni er hún var í flugi.
BBC greinir frá því að Boeing 737 Max 9 vél Alaska Airlines sneri við og lenti á flugvellinum í Portland 35 mínútum eftir flugtak er stórt gat myndaðist í farþegarýminu.
Vélin var á leið til Kaliforníu og var í 16 þúsund feta hæð er hluti farþegarýmisins féll úr henni.
177 farþegar auk áhafnar voru um borð og sakaði engan.
Flugfélagið greindi frá því að allar 65 737 Max 9 vélar félagsins yrðu kyrrsettar þar til búið væri að skoða þær allar.
Boeing sagðist í yfirlýsingu vera meðvitað um atvikið og verið væri að „afla frekari upplýsinga“.
Flugvélar af tegundinni 737 Max máttu fljúga á nýjan leik í Bandaríkjunum árið 2020 eftir að þær höfðu verið kyrrsettar í 20 mánuði vegna tveggja mannskæðra slysa.