Nauðlenti eftir að gat kom á farþegarými vélar

Vél Alaska Airlines.
Vél Alaska Airlines. Mario Tama/Getty Images/AFP

Farþegaflugvél nauðlenti í Oregon í Bandaríkjunum í gær eftir að hluti úr farþegarými vélarinnar féll úr vélinni er hún var í flugi. 

BBC greinir frá því að Boeing 737 Max 9 vél Alaska Airlines sneri við og lenti á flugvellinum í Portland 35 mínútum eftir flugtak er stórt gat myndaðist í farþegarýminu.

Vélin var á leið til Kaliforníu og var í 16 þúsund feta hæð er hluti farþegarýmisins féll úr henni.  

177 farþegar auk áhafnar voru um borð og sakaði engan.

Flugfélagið greindi frá því að allar 65 737 Max 9 vélar félagsins yrðu kyrrsettar þar til búið væri að skoða þær allar. 

Boeing sagðist í yfirlýsingu vera meðvitað um atvikið og verið væri að „afla frekari upplýsinga“. 

Flug­vél­ar af teg­und­inni 737 Max máttu fljúga á nýj­an leik í Banda­ríkj­un­um árið 2020 eft­ir að þær höfðu verið kyrr­sett­ar í 20 mánuði vegna tveggja mann­skæðra slysa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert