Leitað er nú að hluta úr skrokki Boeing 737 Max 9-flugvélar Alaska Airlines sem féll úr farþegarými vélarinnar eftir að gat kom á hana í háloftunum.
CNN greinir frá blaðamannafundi öryggisráðs samgöngumála (NTSB) í Bandaríkjunum þar sem Jennifer Homendy formaður ráðsins biður almenning um aðstoð við leit að hluta farþegarýmisins sem féll úr vélinni.
Þá sagði hún að samkvæmt upplýsingum ratsjár vélarinnar væri hlutinn líklega í Cedar Hills-hverfinu í Portland-borg í Oregon.
Flugvélin var á leið þaðan til Kaliforníu er gatið myndaðist um 35 mínútum eftir flugtak. 177 farþegar voru um borð en engan sakaði.
Homendy greindi frá því að sem betur fer hefði enginn verið í sætum 26A og 26B, sætunum næst gatinu.
Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) ákváðu í kjölfarið að kyrrsetja 171 Boeing 737 Max 9-vélarnar þar til skoðun á þeim hefði farið fram. Fjölda flugferða var aflýst í kjölfarið.
Hinn 33 ára gamli Nick Hoch sagðist hafa heyrt háan hvell áður en flugvélin rykktist til. Súrefnisgrímur féllu þá niður sem farþegar settu á sig samstundis.
Hoch sat vinstra megin í vélinni, nokkrum röðum framan við staðinn þar sem gatið myndaðist. Í samtali við CNN sagðist hann hafa fengið mistur framan í sig.
„Það voru farþegar mun nær sem ég ræddi við sem misstu heyrnartól út úr eyrunum,“ sagði hann.
Stephanie King sat í sætisröð 12 og heyrði mikinn hvell. „Ég vissi að eitthvað slæmt hefði gerst,“ sagði hún við CNN.
King sagði að áhöfnin hefði flutt skilaboð í kjölfarið í kallkerfi vélarinnar en lítið heyrðist í þeim þar sem gat var á vélinni.
Hún sá nokkra farþega, sem sátu nær gatinu, færa sig örvæntingarfullir í önnur sæti.
King sagðist hafa heyrt konu kalla að skyrta sonar hennar hefði fokið af honum er gatið myndaðist.
King sagðist hafa óttast um líf sitt og því tekið upp símann og tekið upp myndbandsskilaboð fyrir ástvini.
Sér hefði fundist sem tíminn áður en vélin lenti aldrei ætla að líða, en í raun hefði flugvélin lent um 10 mínútum eftir atvikið.
„Þá myndaðist mikil ró. Allir voru í áfalli ... Þetta var skelfilegt,“ sagði hún.