Blinken fundar með krónprinsinum

Faisal bin Farhan prins, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, tók á móti Blinken …
Faisal bin Farhan prins, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, tók á móti Blinken við komu hans til landsins í dag. AFP/Evelyn Hockstein

Bandaríski utanríkisráðherrann Anthony Blinken hittir í dag Mohammed bin Salman krónprins sem hefur töglin og hagldirnar í Sádi-Arabíu og stjórnar þar de facto, það er í raun, andstætt því sem kallast de jure þegar réttmætir stjórnendur að lögum fara með stjórn ríkis eða ríkiseiningar.

Kemur Blinken við í Sádi-Arabíu á leið sinni til Ísraels þar sem hann mun ræða leiðir til að binda endi á óöldina á Gasasvæðinu við ísraelsk stjórnvöld.

Umræðuefni þeirra bin Salmans er hins vegar árásir uppreisnarmanna Húta á vöruflutningaskip ýmissa landa á Rauðahafi en írönsk stjórnvöld styðja Húta og báðir aðilar eru þar með hliðhollir Hamas-hryðjuverkasamtökunum á Gasa. Hafa Hútar lýst því yfir að öll skip, sem ætla megi að flytji vörur til Ísraels, séu skotmörk þeirra, óháð skráningarríki.

Deilurnar stigmagnist auðveldlega

Fer fundur ráðherrans og prinsins fram í tjaldi í Al Ula, sögufrægri eyðimerkurvin í vesturhluta Sádi-Arabíu, en Blinken hefur fram til þessa í heimsókn sinni enn fremur rætt við forseta Sameinuðu arabísku furstadæmana, Mohamed bin Zayed Al Nahyan, um nauðsyn þess að væringar Ísraelsmanna og Hamas vaxi að umfangi og deilist víðar.

Haft var eftir Blinken er hann var staddur í Katar í gær að deilurnar stigmögnuðust auðveldlega og hefðu þar með alla burði til að geta af sér enn meiri þjáningar og óöryggi en hingað til.

Árásir Ísraelsmanna, hefnd þeirra fyrir innrás Hamas-liða í október, hafa hingað til kostað tæplega 23.000 Palestínumenn lífið, mest konur og börn eftir því sem heilbrigðisráðuneyti Palestínu, sem lýtur stjórn Hamas-samtakanna, hefur gefið út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka