Flugfélagið United Airlines segir að það hafi fundið lausa bolta í hlerum nokkurra Boeing 737 Max 9 flugvéla við skoðanir síðustu daga. Ráðist var í úttekt vegna þess að hleri slíkrar flugvélar brotnaði af vél Alaska Airlines síðustu viku.
Bandarísk flugmálayfirvöld ákváðu eftir þetta atvik að kyrrsetja 171 Boeing 737 Max 9 vélar og kröfðust þau tafarlausar skoðunar á vélunum.
United Airlines er með 79 Max 9 vélar í flota sínum og er ekkert annað flugfélag með fleiri slíkar flugvélar.
„Frá því við hófum bráðabirgðaskoðanir á laugardaginn höfum við fundið tilvik sem virðast tengjast uppsetningarvandamálum í hlerunum – til dæmis bolta sem þurfti að herða frekar,“ sagði United Airlines í yfirlýsingu.
Segir fyrirtækið að þetta verði lagað og svo verði flugvélarnar klárar til að fljúga aftur.
Icelandair er með fjórar Boeing Max 9 vélar en þær eru ekki með sama búnað og tengist atviki Alaska Airlines. Því er ekki talin þörf á kyrrsetningu þeirra.