Bandarísk flugmálayfirvöld hafa fundið hluta úr skrokki Boeing-flugvélarinnar, sem brotnaði utan af farþegarými vélarinnar í miðjum háloftunum.
Samkvæmt yfirvöldum fannst hurðin í bakgarði kennara að nafni Bob í borginni Portland í Oregon-ríki.
Samkvæmt öryggisráði samgöngumála í landinu (NTSB) mun fundur hlutarins aðstoða rannsakendur við að komast til botns í málinu.
Flugvélin var á leið frá Oregon til Kaliforníu er gatið myndaðist á skrokki vélarinnar, um 35 mínútum eftir flugtak. 177 farþegar voru um borð en engan sakaði.
Flugmálayfirvöld gáfu í kjölfarið út fyrirmæli um tafarlausa skoðun á tilteknum Boeing 737 Max 9-vélum og kyrrsettu 171 vél á heimsvísu, þar á meðal hjá Turkish Airlines. Engar af fjórum Boeing 737 Max 9, sem reknar eru af Icelandair, hafa verið kyrrsettar.
Boeing-flugframleiðandinn hefur undanfarin ár glímt við tækni- og gæðaeftirlitsvandamál sem tengjast 737 MAX-vélunum. Í desember beindi framleiðandinn tilmælum til flugfélaga um að athuga vélbúnað í stýriskerfi flugvélanna, eftir að galli fannst í einni vél við reglubundna viðhaldsskoðun.
Einnig voru Boeing 737 MAX-vélar kyrrsettar víða um heim í kjölfar tveggja MAX 8-flugslysa árin 2018 og 2019 sem kostuðu alls 346 mannslíf.
Flugvélaframleiðandinn sagði í tilkynningu að forstjóri þess, Dave Calhoun, hefði boðað til öryggisfundar með starfmönnum fyrirtækisins á þriðjudag.