Ísraelar drápu háttsettan hershöfðingja í Hezbollah-samtökunum í loftárás í suðurhluta Líbanons.
Þetta sagði heimildarmaður innan öryggissveita við AFP-fréttastofuna í dag. Fyrir vikið hefur ótti um að átökin á Gasasvæðinu breiðist út aukist enn frekar.
Í tilkynningu segja Hezbollah hershöfðingjann hafa heitið Wissam Hassan Tawil. Fram kemur að hann hafi dáið „á leiðinni til Jerúsalem”, sem er frasi sem er notaður um vígamenn sem eru drepnir af Ísraelum.
Tawil var „í leiðtogahlutverki í stjórnun aðgerða Hezbollah í suðri”, að sögn heimildarmanns AFP.
Tawil er háttsettasti liðsmaður Hezbollah sem hefur verið drepinn eftir að átökin fyrir botni Miðjarðarhafs brutust út 7. október.
Dráp á næstráðanda Hamas-samtakanna í Beirút, höfuðborg Líbanons, í síðustu viku juku á ótta um að átökin myndu breiðast enn frekar út.