Tengir manndrápsbylgju jólunum

Hvít jól með bifreiðir viðbragðsaðila í forgrunni. Eru jólin kveikja …
Hvít jól með bifreiðir viðbragðsaðila í forgrunni. Eru jólin kveikja manndrápsbylgju í Noregi? Það er hald eins þeirra fræðimanna sem NRK ræðir við um fimm manndrápsmál fyrstu viku ársins 2024. Skjáskot/Vefmyndavél

Norskir fræðimenn velta því fyrir sér í samtölum við ríkisútvarpið NRK hvort skýringar sé að finna á fimm manndrápsmálum – þar sem samtals átta manns týndu lífi sínu – í landinu fyrstu viku þess, og það í kjölfar nýliðins árs 2023, fyrsta ársins síðan 2013 síðan fleiri en 30 manns hafa fallið fyrir hendi samborgara sinna – og í um helmingi tilfella ástvina sinna.

Solveig Vatnar, prófessor og sérfræðingur í sálfræði við SIFER, rannsóknarstofnun um fangelsis- og réttargeðlæknisfræði, segir að engan skyldi undra að almenningur reki upp stór augu yfir svo blóðugri ársbyrjun. „Það er óvenjulegt að svo margir séu ráðnir af dögum á svo skömmum tíma í Noregi,“ segir prófessorinn og bætir því við að fullsnemmt sé að segja nokkuð um hvort voðaatburðirnir tengist nýliðnum áramótum.

Bendir Vatnar á að síðastliðna þrjá áratugi hafi manndrápum fækkað hægt en greinanlega í landinu og vegna þess hve manndráp séu í raun fátíð í Noregi sé erfitt að finna ákveðin mynstur í tölfræðinni. „Þegar atburðir hafa lága tíðni vill dreifing þeirra yfir árið verða tilviljanakenndari en atburða sem oft verða,“ segir Vatnar.

Fólk þvingað til samsætis

Svein Øverland, forstöðumaður Landssambands fræðimanna um réttargeðlæknisfræði, Nasjonal enhet for rettspsykiatrisk sakkyndighet, NERS, telur hins vegar að finna megi sterk tengsl jólahátíðarinnar við ofbeldisverk og manndráp. „Um hátíðina er fólk, sem troðið hefur illsakir, þvingað til að koma saman þrátt fyrir að því sé illa við hvort/hvert annað. Áfengi tengist oft manndrápum,“ segir forstöðumaðurinn og bætir því við að jólunum fylgi einnig oft streitutengdur pirringur sem ekki bæti úr skák.

Kveður Øverland þó ástæðu til að hafa áhyggjur af þróun mála og ljóstrar því upp að NERS hafi aldrei fengið annan eins fjölda fyrirspurna og í desember frá lögreglu um atvik sem tengst gætu geðrofi geranda. Voru slíkar fyrirspurnir 147 í desember sem er það mesta sem nokkurn tímann hefur borist einn og sama mánuðinn en að meðaltali fá samtökin 110 til 120 fyrirspurnir á mánuði og um 1.400 ár hvert.

Innlagnarrýmum geðdeilda fækkað

Norskar rannsóknir hafa að sögn Øverlandgefið voveiflegar niðurstöður. „Síðasta áratuginn hefur það færst í aukana að fólk í geðrofsástandi fremji manndráp,“ segir hann við NRK og tengir það við þá þróun að innlagnarrýmum fyrir fólk sem stríði við geðrænan vanda hafi fækkað á norskum geðdeildum en á 23 árum, frá 1998 til 2021, hefur slíkum rýmum fækkað um 42 prósent sem er fækkun um rúmlega 2.500 rými. Í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð hefur samsvarandi rýmum fækkað um 60 prósent síðustu fjóra áratugi.

„Það finnst okkur sem fáumst við réttargeðlækningar ógnvekjandi en eins er mikilvægt að fram komi að fæstir sem þjást af geðrænum kvillum gerast sekir um manndráp,“ segir hann enn fremur.

Þrátt fyrir orð Solveigar Vatnar telja rannsakendur NERS sig hafa greint visst mynstur í ofbeldisverkum og byggja á því hvenær þeim berist flestar fyrirspurnir. Það er í janúar og október en Øverland hefur einnig niðurstöður á hraðbergi um sjálfsvíg og árstíma.

„Um 700 manns taka líf sitt í Noregi ár hvert. Margir þeirra gera það að vor- og sumarlagi,“ segir hann og teflir því einnig fram að geðrofstilfelli séu sérstaklega tíð síðsumars.

Öll manndráp eiga sínar orsakir

Vibeke Ottesen, rannsakandi í manndrápsmálum við Háskólann í Ósló, var gestur fréttaskýringaþáttar NRK, Nyhetsmorgen, í morgun og sagði þar að norska þjóðin hefði horft upp á óvenjulega mörg manndrápsmál á stuttu tímabili nú í ársbyrjun. Engu að síður telur hún ekkert sérstakt samhengi mega lesa út úr þeim fjölda.

„Öll manndráp eiga sér sínar orsakir og mismunandi flokkar manndrápa eiga sér sínar dæmigerðu orsakir. Þegar menn myrða maka sinn er það gjarnan sprottið af sambandsslitum sem konan hefur átt frumkvæðið að en þar geta fjárhagslegar ástæður einnig legið til grundvallar. Oft eru þar á ferð menn í sjálfsvígshugleiðingum sem taka makann og ef til vill börn með sér í dauðann,“ sagði Ottesen í Nyhetsmorgen á NRK í morgen.

Telur hún þess vegna að skoða þurfi þarfir gerandans nánar. „Þar má líta á þá umræðu sem átt hefur sér stað síðustu vikuna um viðsnúið viðvörunarkerfi [n. omvendt voldsalarm, aðili sem sætir nálgunarbanni ber ökklaband með staðsetningarbúnaði sem sendir boð til lögreglu, og þess sem lifir í skjóli bannsins, komi ökklabandið svo nærri að nálgunarbann teljist brotið],“ sagði Ottesen enn fremur og vísaði til máls sem mbl.is fjallaði um í síðustu viku.

NRK

NRKII („bara venjuleg fjölskylda“)

NRKIII (innlagnarrýmum fækkað)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert