„Enn hættulegasti maður Noregs“

Gríðarleg öryggisgæsla var í íþróttasal Ringerike-fangelsisins þar sem Héraðsdómur Óslóar …
Gríðarleg öryggisgæsla var í íþróttasal Ringerike-fangelsisins þar sem Héraðsdómur Óslóar hóf þinghald sitt í gær í máli Breiviks gegn norska ríkinu. AFP/Cornelius Poppe

Andreas Hjetland, annar lögmanna norska ríkisins í máli fjöldamorðingjans Anders Behring Breiviks gegn því, eða Fjotolf Hansen eins og hann heitir í þjóðskrá frá 2017 að telja, varar við framburði Breiviks í dag þegar hann stígur í vitnastúkuna í Héraðsdómi Óslóar, sem hefur þinghald sitt í fangelsinu í Ringerike af öryggisástæðum.

„Þegar við fáum að heyra framburð Breiviks mun hann leggja fram tvöfalt bókhald sitt, nokkuð sem táknar að hann sjálfur er í raun annarrar skoðunar [en ráða má af framburðinum]. Sumt af því verður hagræðing sannleikans, annað hreinar lygar,“ segir Hjetland við norska ríkisútvarpið NRK en honum til fulltingis við málsvörn norska ríkisins er Kristoffer Nerland.

Svo sem nýlega var fjallað um hér á vefnum hefur Breivik nú blásið til málarekstrar gegn ríkinu vegna þess sem hann telur vera heilsuspillandi aðstæður í einangrunarvist hans í Ringerike-fangelsinu. Er þar ekki átt við sjálft húsnæðið sem hann dvelur í – fjöldamorðinginn afplánar á eigin lokaðri deild þar sem hann hefur aðgang að svæði á tveimur hæðum – heldur telur Breivik einangrun sína og skort á umgengni við aðrar manneskjur hafa í för með sér andlegt niðurbrot og hrörnun.

Annars konar dómarar en þeir sem dæma í héraði eru …
Annars konar dómarar en þeir sem dæma í héraði eru algengari sjón á gólfum á borð við það sem hér sést en íþróttasalur fangelsisins þykir kjörinn réttarsalur þegar annar málsaðila getur ekki yfirgefið prísund sína. AFP/Cornelius Poppe

Raunhæfar kröfur um úrbætur

Lögmaður Breiviks, Øystein Storrvik, notaði stóran hluta upphafsdags réttarhaldanna í gær til að ræða það sem hann kallar málamiðlunarúrræði eða „kompenserende tiltak“ á norsku. Kvaðst hann gera sér fulla grein fyrir því að „22. júlí-hryðjuverkamaðurinn“ krefðist sérstakra gæsluúrræða og yrði að setja fram raunhæfar kröfur um úrbætur.

Önnur hæðin í fangelsis„svítu“ Breiviks þar sem hans einkaæfingasal er …
Önnur hæðin í fangelsis„svítu“ Breiviks þar sem hans einkaæfingasal er að finna. AFP/Ole Berg-Rusten

Áhersluatriði sækjenda eru helst að Breivik hittir nánast eingöngu starfsfólk fangelsisins og Storrvik lögmann. Hann óskar aukinnar umgengni við aðra fanga og minni takmarkana á borð við hindranir á milli hans og þeirra sem hann er samvistum við. Telur Storrvik að fólk ætti að geta heimsótt Breivik án þess að málmgrind sé á milli gests og fanga.

Þá óskar Breivik eftir að dregið verði úr eftirliti með efni þeirra bréfa sem hann sendir út úr fangelsinu. „Breivik þarf að eiga samskipti við fólk sem er ekki tilneytt að umgangast hans starfs síns vegna,“ segir lögmaðurinn.

Breivik situr á milli lögmanns síns, Øystein Storrvik, og aðstoðarmanns …
Breivik situr á milli lögmanns síns, Øystein Storrvik, og aðstoðarmanns lögmannsins, Marte Lindholm. AFP/Cornelius Poppe

Hættulegasti maður Noregs í samtímanum

Aðspurður segir Hjetland lögmaður bréf Breiviks einkum vera til skoðanabræðra hans og norskra þingmanna og sér sé ekki kunnugt um hve mörg bréfanna séu stöðvuð, það er fái ekki að sendast viðtakanda. Fyrir rétti í gær sagði hann flest þeirra bréfa vera hópsendingar til fólks sem Breivik þekki ekki persónulega og þar sem hann reyni að koma sér upp neti eða félagsskap þeirra sem hneigjast til sömu skoðana.

Norska öryggislögreglan PST lagði fram skýrslu fyrir réttarhöldin sem var sveipuð leynd þar til í gær. Lýsa skýrsluhöfundar Breivik sem „dýrlingi“ í kreðsum hægriöfgamanna á alþjóðavísu. Er það ein ástæða þess að norsk yfirvöld krefjast kirfilegs eftirlits með bréfaskriftum hans.

Birgitte Kolrud héraðsdómara bíður það verkefni að taka afstöðu til …
Birgitte Kolrud héraðsdómara bíður það verkefni að taka afstöðu til þess hvort norska ríkið fari offari gegn „hættulegasta manni Noregs í okkar samtíma“ með því að halda honum í sífelldri einangrun og hnýsast í bréf hans. AFP/Cornelius Poppe

„Þetta [eftirlit] teljum við ganga allt of langt,“ segir Storrvik en Hjetland er hins vegar þeirrar skoðunar að ódæði þau sem Breivik drýgði 22. júlí 2011 séu í sjálfu sér næg staðfesting þess að umfangsmikillar öryggisgæslu sé þörf.

„Hann er enn þá hættulegasti maður Noregs í okkar samtíma,“ segir lögmaðurinn að lokum við NRK.

NRK
VG („hann er með áætlanir um allt“)
Aftenposten („hann veit að hann kemur aldrei út“)
TV2 („við öðluðumst von“)
Dagbladet („hefðum betur sent hann til Guatanamo“)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert