Navalní í einangrun í fanganýlendunni

Alexei Navalní.
Alexei Navalní. AFP/Alexander Nemenov

Rúss­neski stjórn­arand­stæðing­ur­inn Al­ex­ei Navalní hefur verið fluttur í einangrun í fanganýlendu fyr­ir norðan heim­skauts­baug.

Stuðningsmenn Navalní segja að stjórnvöld í Kreml reyni nú að einangra Navalní eins og hægt er fyrir kosningar í landinu þar sem Vladimír Pútín sækist eftir fimmta kjörtímabilinu í embætti forseta. 

„Ég fékk sjö daga í SHIZO,“ sagði Navalní á Telgeram og á þar við einangrunarvist í rússneska fangelsinu. 

32 stiga kuldi

Navalní hefur reglulega greint frá áreitni af hálfu fangelsisyfirvalda en þetta er í 24. skiptið sem hann er settur í einangrun. Stuðningsmenn hans segja hann alls hafa dvalið 273 daga í einangrun. 

Í þetta sinn segja fangaverðir að Navalní hafi „neitað að tilkynna sjálfan sig líkt og hann skal gera, og að hann hafi ekki sinnt vinnuskyldu“.

Navalní gantaðist með það að 32 stiga kuldi væri í bakgarðinum hjá honum og að ekkert væri meira hressandi en göngutúr klukkan 6:30 á morgnana í slíkum kulda. 

„Þvílíkur dásamlegur andvari sem blæs inn í fangelsisgarðinn þrátt fyrir steinsteypta girðingu,“ ritaði Navalní. 

Fanganýlendan sem hinn 47 ára gamli Navalní dvelur í kallast IK-3 og er í Kharp, um 1.900 kílómetra norðaustur af Moskvu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert