„Það er ekki ég sem er hættulegur“

Breivik mætir í réttarsalinn í morgun. Hann bar vitni í …
Breivik mætir í réttarsalinn í morgun. Hann bar vitni í eigin máli í dag. AFP/Cornelius Poppe

Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik hristi höfuðið ítrekað á meðan hann hlýddi á annan lögmanna norska ríkisins fara yfir mat öryggislögreglunnar PST á því hve hættulegur hann væri, á öðrum degi þinghalds í máli hans gegn ríkinu sem rekið er fyrir Héraðsdómi Óslóar en réttarsalurinn er íþróttasalur Fangelsisins í Ringerike.

Steig Breivik sjálfur í vitnastúkuna í eigin máli í dag til að bera vitni um óviðunandi einangrunarvist sína í fangelsinu – sem nú hefur staðið á þrettánda ár – þrátt fyrir að einna mesta athygli viðstaddra vekti svar hans er Birgitte Kolrud héraðsdómari spurði hann um starfsgrein. Svaraði Breivik því þá til að hann gegndi formennsku stjórnmálaflokksins Nordic State en ekkert löglega skráð stjórnmálaafl í Noregi ber það nafn.

Greip margoft fram í fyrir Breivik

„Ég hef aldrei lyft fingri gegn neinum eftir að ég var handtekinn,“ svaraði Breivik áburði PST auk þess sem hann vísaði því alfarið á bug að hann hefði haft í hótunum við nokkurn mann. „Ég hef verið rakkaður niður og ég hef rakkað [aðra] niður til baka,“ sagði stefnandinn um hótanir af hans hálfu sem hann ekki vildi kannast við.

„PST segir ekki að ég sé enn hættulegur, hún segir að ég sé áhrifavaldur,“ sagði Breivik og notaði þar norska orðið „inspirasjonseffekt“, það er að honum sé í lófa lagið að blása öðrum einhvers konar áhrifum í brjóst.

Reyndi Breivik oftsinnis að greina dómaranum frá aðstæðum sínum í afplánuninni fyrstu árin, þá í fangelsinu í Skien, en Øystein Storrvik, lögmaður hans, greip margoft fram í fyrir skjólstæðingi sínum og bað hann að einbeita sér að aðstæðum hans eins og þær væru nú og í því fangelsi sem hýsir réttarhöldin í íþróttasal sínum, Ringerike.

Veit að ríkið vill hann feigan

„Málsaðilar hafa eina klukkustund hvor til ráðstöfunar og ég vildi bara fá hann til að fjalla um það sem réttarhöldin snúast um,“ útskýrði Storrvik eftir framburð vitnisins. Reyndi hann að fá Breivik til að tjá sig meira um hvers kyns samband hann hefði við umheiminn.

„Fjögur þúsund manns bíða eftir svari en mér leyfist ekki að senda bréf til nokkurs manns sem ég var ekki í sambandi við fyrir 2011. Mörg ár eru síðan ég átti mér einhver þýðingarmikil tengsl,“ sagði Breivik sem kaus að tjá sig standandi með þrjá fangaverði að baki sér sem mynduðu um hann hálfhring.

Sagði Breivik að hann væri vel meðvitaður um að ríkið vilji hann feigan en í gær sagði hann af notkun þunglyndislyfja til að komast gegnum daginn. Frá sumu af þessu greindi hann grátklökkur áður en Andreas Hjetland, annar lögmanna ríkisins, tók að lesa upp tilvitnanir starfsfólks fangelsisins í fangann, svo sem er hann tók upp hanskann fyrir Pútín eftir innrásina í Úkraínu.

Vöfflubakstur með samfanga

„Telurðu að hryðjuverk séu nauðsynleg?“ spurði starfsmaðurinn. „Algjörlega,“ svaraði Breivik án þess að blikna, „svo lengi sem þú átt þér markmið eru miskunnarlausar aðgerðir réttlætanlegar.“

Lagði Storrvik áherslu á að skjólstæðingur hans óskaði meira samneytis við aðrar manneskjur en lögmenn ríkisins bentu þá á að hann hitti aðra fanga og hefði meðal annars bakað vöfflur með samfanga.

Bréf Breiviks voru einnig töluvert til umræðu en Hjetland vildi ekki gefa upp hve mörg þeirra fangelsið stöðvi að jafnaði, þar sé mest um að ræða hópsendingar til fjölda fólks sem Breivik þekki ekki. Nefndi hann tvö dæmi um einkabréf sem engin ástæða hefði þótt til að stöðva.

Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð málsins standi fram að helgi.

NRK

VG

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka