Trump krefst friðhelgi hjá áfrýjunardómstóli

Donald Trump.
Donald Trump. Scott Olson/Getty Images/AFP

Donald Trump er nú staddur í réttarsal í Washington-borg til þess að færa rök fyrir því að sem fyrrverandi forseti Bandaríkjanna eigi hann að njóta friðhelgi gegn ákærum sem snúa að tilraunum hans til að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna árið 2020. 

Hinn 77 ára gamli Trump mætti ásamt föruneyti í áfrýjunardómstólinn í Washington í dag, nærri þinghúsinu þar sem stuðningsmenn hans gerðu áhlaup 6. janúar árið 2021. 

Frá föruneyti Trumps á leið í dómstólinn í dag.
Frá föruneyti Trumps á leið í dómstólinn í dag. Samuel Corum/Getty Images/AFP

Trump, sem leiðir nú forval Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í ár, á að mæta fyrir dómi í Washington 4. mars vegna ákæru sem er í fjórum liðum og snýr m.a. að ólögmætum tilraunum Trumps til að hafa áhrif á kosningarnar árið 2020. 

Lögfræðingar Trump hafa reynt að grafa undan ákærunni með þeim rökum að Trump njóti friðhelgi sem fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og því sé ekki hægt að ákæra hann fyrir atburði sem áttu sér stað á meðan hann var í embætti. 

Þrír dómarar

Tanya Chutkan, dómari í málinu, hafnaði kröfu Trumps um friðhelgi í desember. Hann áfrýjaði þeirri niðurstöðu og kemur því fram fyrir þremur dómurum áfrýjunardómstólsins í dag til að flytja vitnisburð sinn. 

Tveir dómarar í málinu voru skipaðir af Joe Biden Bandaríkjaforseta og sá þriðji var skipaður af fyrrverandi forsetanum og repúblikanum, George H.W. Bush. 

Þess var ekki krafist að Trump yrði viðstaddur réttarhöldin í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert