Umdeild námuvinnsla í sjónmáli

Ekki er hlaupið að því að grafa námur og vinnu …
Ekki er hlaupið að því að grafa námur og vinnu úr þeim verðmæti á svo miklu hafdýpi sem leitarsvæði Norðmanna munu liggja á auk þess sem framkvæmdin hefur vakið háværar mótmælaraddir. Tölvugerð mynd/Tækniháskólinn í Þrándheimi

Norðmenn gætu orðið fyrstir þjóða heimsins til að hefja umdeildar framkvæmdir við námuvinnslu á djúpum hafsbotni (e. deep-sea mining eða DSM) með nýtingu í atvinnuskyni í huga, samþykki Stórþingið í dag tillögu um að heimila fyrirtækjum að sækja um leitarleyfi á 281.000 ferkílómetra stóru svæði, sem er meira að umfangi en Bretland, í Barentshafi og Grænlandshafi.

Málmar og steinefni eru þar undir, sum mikilvæg tækniframleiðslu nútímans, svo sem farsímum og rafhlöðum í straumknúnar bifreiðar en þarna er meðal annars eftir kóbalti, kopar, sinki, skandíum, liþíum og fleiri efnum að slægjast.

Talið er víst, eftir þverpólitíska umræðu um málið fyrir áramótin, að þingið gefi vinnslunni grænt ljós en í nóvember tók það til umfjöllunar skýrslu norska olíu- og orkumálaráðuneytisins þar sem áform um vinnslu jarðefna á hafsbotni voru til skoðunar auk þess sem þar var mörkuð sú stefna að heimila leit á umræddu svæði með nýtingu í atvinnuskyni að markmiði.

Uppfært kl. 16:12: Stórþingið samþykkti rétt í þessu að heimila fyrirtækjum að sækja um leitarleyfi á umræddu svæði og fékkst samþykkið með meirihluta Hægri, Verkamannaflokksins, Framfaraflokksins og Miðflokksins. Þeir flokkar sem ekki vildu veita tillögunni brautargengi voru Sósíalíski vinstriflokkurinn, Rautt, Vinstri, Græningjar og Kristilegi þjóðarflokkurinn.

Kínverjar eiga námurnar

Þótt velflest efnanna séu finnanleg í vinnanlegu magni á landi eru aðföng ekki alltaf hin auðveldustu, einar auðugustu kóbaltnámur heims er til dæmis að finna í Lýðveldinu Kongó og eru þær flestar í eigu Kínverja.

Kynning norskra stjórnvalda á verkefninu í júní í fyrra varð tilefni háværra mótmæla umhverfis- og dýravina og talaði Karoline Andaur, aðalritari Alþjóðlega náttúruverndarsjóðsins WWF, um svartan dag fyrir norska náttúru þegar norska ríkisútvarpið NRK ræddi málið við hana.

Taldi Andaur norsk stjórnvöld auk þess varpa „óheppilegu ljósi“ á landið á alþjóðavettvangi. „Enn einu sinni sýnir Noregur að við tökum alþjóðlegar skuldbindingar og náttúruna ekki alvarlega,“ sagði aðalritarinn.

Skýrari kröfur til umhverfisins

Bård Ludvig Thorheim, þingmaður Hægriflokksins norska fyrir Nordland-fylki, var meðal þeirra sem kynnti fyrirhugaða námuvinnslu á blaðamannafundi í desember og greindi þá frá því að mikið verk hefði verið unnið frá því snemmsumars, þegar stjórnin kynnti fyrirætlan sína fyrst, auk þess sem hlýtt hefði verið á álit fjölda aðila, hvort tveggja mótföllnum vinnslunni og fylgjandi henni.

„Við gerum nú mun skýrari kröfur til umhverfisins og umhverfisáhrifa og höfum bætt nýju þrepi inn í áætlunina sem Stórþingið mun þurfa að leggja blessun sína yfir,“ sagði Thorheim en það er einmitt þrepið sem rætt var á þinginu í dag.

Gera áætlanir ráð fyrir að leitarleyfum verið útdeilt með svipaðri aðferðafræði og gert var á fyrstu árum og áratugum olíuleitar og -vinnslu á norska landgrunninu, það er að segja ný leitarsvæði verði opnuð í áföngum eftir ákveðnu kerfi.

Vinnsla í fyrsta lagi eftir áratug

Lars Haltbrekken, þingmaður Sósíalíska vinstriflokksins, SV, er algjörlega mótfallinn framkvæmdinni og segir það óhugsandi að norsk stjórnvöld skipi sér fremst í röð þeirra ríkja sem hyggist umturna hafsbotninum með djúpsjávarnámuvinnslu.

Breska ríkisútvarpið BBC ræðir við Walter Sognnes, einn stofnenda norska námuvinnslufyrirtækisins Loke Minerals sem hyggst sækja um leitarleyfi á hafsbotni, og fullvissar hann fréttamenn BBC um að ekki verða hróflað við hafsbotninum fyrr en að undangenginni langvinnri kortleggingu og ítarlegum rannsóknum.

„Að öðlast þekkingu á miklu hafdýpi er mjög kostnaðarsamt, beita þarf [fjarstýrðum] vélmennum sem kosta sitt og því miður hafa háskólarnir takmarkaðan aðgang að slíkum tækjum,“ segir Sognnes við BBC og bætir því við að eiginleg vinnsla jarðefna úr hafsbotninum hefjist í fyrsta lagi í byrjun næsta áratugar.

NRK

DN

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert