Dave Calhoun, forstjóri Boeing, segir flugvélaframleiðandann bera ábyrgð á atvikinu í flugvél Alaska Airlines í síðustu viku þegar hleri brotnaði af vélinni í háloftunum.
Hann lofar jafnframt „algjöru gegnsæi” í tengslum við málið.
„Við ætlum að takast á við þetta, í fyrsta lagi með því að viðurkenna okkar mistök,” sagði Calhoun við starfsmenn á öryggisfundi sem var haldinn eftir neyðarlendingu flugvélarinnar.
„Við ætlum að nálgast þetta með 100 prósenta gegnsæi eða með öðrum orðum algjöru gegnsæi alla leið,” sagði hann jafnframt.
Calhoun tók við sem forstjóri Boeing fyrir fjórum árum eftir að tvær MAX 737-vélar frá fyrirtækinu brotlentu. Hann kveðst ætla að vinna með rannsóknarnefnd samgönguslysa í Bandaríkjunum (NTSB) sem rannsakar atvikið.
„Ég treysti hverju einasta skrefi þeirra og þau munu komast að niðurstöðu,” sagði hann um nefndina.