Sonurinn sogaðist nærri út um gat flugvélarinnar

Konan segir Alaska Airlines gera lítið úr atvikinu, en litlu …
Konan segir Alaska Airlines gera lítið úr atvikinu, en litlu munaði að sonur hennar sogaðist út um gatið. AFP/Mario Tama/Getty Images

Kona sem var um borð í Boeing-vélinni, þar sem gat kom á skrokkinn í háloftunum, segir eitthvað hafa komið yfir sig er gatið myndaðist við hliðina á gluggasæti sonar hennar. 

Litlu munaði að sonurinn sogaðist út um gatið en konan, sem aðeins vill láta millinafns síns getið, kveðst hafa séð sæti hans snúast í átt að gatinu er þrýstingur í vélinni féll. 

Í samtali við Seattle Times segir hún handleggi sonarins hafa togast upp og höfuðpúða sætisins hafa rifnað af og sogast út um gatið samstundis. 

Bolur hans flettist einnig upp af honum og hvarf út í háloftin.

Um er að ræða 737 Max 9-vél Alaska Air­lines, en vélin flaug frá Portland og snéri við aðeins 35 mínútum eftir flugtak er gatið myndaðist. 

Dró drenginn yfir sætisarminn

„Hann og sætið hans drógust aftur í átt að gatinu,“ segir Faye 

„Ég teygði mig yfir hann, greip um líkama hans og dró hann til mín yfir sætisarminn (...) ég hef ábyggilega aldrei verið jafn full af adrenalíni á ævinni.“

Kveðst Faye hafa krækt handleggjum sínum undir handleggi og utan um bak sonarins. Hún hafi ekki áttað sig á því fyrr en eftir lendingu vélarinnar að þrýstingurinn hafi verið svo mikill að föt sonarins hefðu rifnað af honum.

Með erfiði hafi sætisnautur þeirra mæðgina náð að setja súrefnisgrímur á þau öll. Viðkomandi hafi einnig aðstoðað hana við að halda syninum.

Þykir flugfélagið gera lítið úr atvikinu

Eftir nokkra stund hafi þrýstingurinn í vélinni jafnast út og hættan á að þau myndu sogast út minnkað. Hún hafi þá haft tök á að styðja á hnapp til að kalla á flugfreyju til að biðja um að færa sig í önnur sæti.

„Ég sá áfallið á andliti hennar,“ sagði Faye. „Ég man að ég hugsaði að hún vissi ábyggilega ekki að það væri gat á flugvélinni fyrr en á þessari stundu,“ segir Faye.

Hún segir soninn hafa hlotið meiðsl af atvikinu. Kveðst hún upprunalega ekki hafa haft áform um að ræða málið við fjölmiðla en hafi reiðst mikið við að sjá yfirlýsingu Alaska Airlines, þar sem félagið hafi sagt aðeins tilfelli um minniháttar meiðsl, sem henni hafi þótt gera lítið úr atvikinu.

Reiðin hafi ágerst er hún sá frásagnir um að flugmenn hefðu áður séð viðvaranir um þrýstingsfall í vélunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka