Heilu hverfin hafa verið jöfnuð við jörðu í sprengjuárásum, fjöldagrafir hafa verið grafnar í sandinn, smitsjúkdómar berast á milli manna og íbúar glíma við hungur. Þetta hafa Palestínumenn mátt þola nú þegar brátt 100 dagar verða liðnir frá því stríðið á Gasa hófst, en íbúar Gasa er um 2,4 milljónir talsins.
Þetta kemur fram í umfjöllun AFP þar sem rætt er við íbúa og fólk á flótta. Ísraelski herinn brást hart við í kjölfar hryðjuverkaárása Hamas á Ísrael 7. október í fyrra og eru nú þrír mánuðir liðnir frá því átökin hófust.
„Mér líður eins og þetta hafi verið 100 ár,“ segir Abdul Aziz Saadat, sem er á meðal þeirra Palestínumanna sem eru á vergangi, en það er mat Sameinuðu þjóðanna að heildarfjöldi fólks á flótta á Gasa sé um 1,9 milljónir. Saadat hefst nú við í borginni Rafah, sem er á suðurhluta Gasa. Þar er gríðarlega þéttbýlt.
„Sumir búa í skólum, sumir á götunni, á gólfum, aðrir sofa á bekkjum,“ segir Saadat. Í Rafah hafast margar fjölskyldur við í tjöldum til að verjast vetrarkuldanum.
„Stríðið hefur ekki hlíft neinum.“
Ísraelsk yfirvöld hafa heitið því að gjöreyða Hamas, sem stjórnar Gasa, eftir að liðsmenn samtakanna fóru yfir landamærin og myrtu um 1.140 manns, aðallega óbreytta borgara. Þá voru um 250 manns teknir sem gíslar.
Ísraelsher brást hart við og hefur valdið gríðarlegri eyðileggingu á Gasa. Viðbrögðin hafa verið meiri og harðari en í þeim fjórum stríðsátökum sem höfðu áður brotist út. Þá ríkir mikil reiði á Miðausturlöndum og víðar vegna umfangs aðgerðanna.
Um 23.000 hafa látist í átökunum að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasa, sem lútir stjórn Hamas. Það gerir um 1% heildaríbúafjöldans. Meirihluti látinna eru konur og börn.
Á sunnudag verða liðin 100 dagar frá því átökin hófust, og ekki sér fyrir endann á þeim.
Ísraelsher hefur skotið mörg þúsund flugskeytum á Gasaströndina, sem er mjög þéttbýlt svæðið. Fjölmörg íbúðarhús hafa verið jöfnuð við jörðu og hvert sem litið er má sjá sviðna jörð.
Stór hluti norðurhluta Gasa hefur verið lagður í rúst og þar eru fáir íbúar eftir, en ísraelskar hersveitir hafa farið þar í gegn á skriðdrekum og öðrum brynvörðum ökutækjum frá því innrás Ísraela hófst 27. október. Ísraelar hafa misst 186 hermenn í átökunum.
Sjúkrahús á Gasa, skólar og moskur hafa verið á meðal skotmarka Ísraelshers. Talsmenn hersins hafa haldið því fram að vígamenn Hamas hafi falið sig á meðal óbreyttra borgara í viðamiklu kerfi neðanjarðarganga, sem liggi beint undir byggð.
Heilu hverfin hafa verið sprengd í loft upp eins og sést hefur á ljósmyndum og myndskeiðum.
„Þetta er bara svo umfangsmikið,“ segir Jamon Van Den Hoek, sem er aðstoðarprófessor við háskólann í Oregon í Bandaríkjunum, en hann hefur verið að skrá umfangið og áhrifin með því að skoða myndefni úr gervihnöttum.
„Hraði eyðileggingarinnar er í raun og veru alveg fordæmalaus.“
Talið er að um 45-56% allra bygginga á Gasa hafi verið skemmdar eða eyðilagðar þann 5. janúar sl. Þetta byggir á rannsókn sem var unnin með Corey Scher við City-háskólann í New York.
„Umfang skemmda sem við höfum tekið eftir á Gasa, er í raun bara hægt að bera saman við þau svæði í Úkraínu sem hafa orðið allra verst úti,“ segir Scher.