Ísraelski herinn (IDF) fullyrðir að tveir blaðamenn sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera sem féllu í loftárás á Gasasvæðinu hafi verið hryðjuverkamenn.
Hamza Wael Dahdouh og Mustafa Thuria, voru við störf í borginni Rafah á suðurhluta Gasasvæðisins þegar ísraelski herinn gerði loftárás á skotmörk í borginni.
Herinn sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem segir að Mossad, ísraelska leyniþjónustan, hafi staðfest að báðir blaðamennirnir hafi verið meðlimir hryðjuverkasamtaka á Gasasvæðinu sem hafa tekið virkan þátt í árásum gegn hersveitum Ísraela.
„Áður en árásin átti sér stað notuðust þeir við tvo dróna sem voru ógn við hermenn IDF.“
Fréttaveita AFP spurði talsmenn Ísraela hvers konar dróna mennirnir hafi notast við og hvers eðlis ógn þeirra við hermenn IDF væri. Sögðust talsmenn ísraelska hersins vera að kanna það.
Herinn sagði síðar að Thuria hafi verið auðkenndur sem liðsmaður Hamas-hryðjuverkasamtakanna í skjali sem ísraelskir hermenn á Gasasvæðinu fundu og að Dahdouh hafi verið auðkenndur sem hryðjuverkamaður sem tilheyrði hinu íslamska jihad.
Enginn viðbrögð hafa fengist frá sjónvarpsstöðinni eða aðstandendum mannanna.
Dahdouh og Thuria létust þegar bifreið þeirra varð fyrir tveimur eldflaugum á götum Rafah. Þriðji blaðamaðurinn særðist í árásinni ásamt ökumanni bifreiðarinnar.
Skömmu eftir að Dahdouh og Thuria féllu sagði Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að dauði þeirra væri „ólýsandi harmleikur“.
Ísrael hefur heitið því að uppræta Hamas-hryðjuverkasamtökin og hafa haldið úti linnulausum árásum á Gasasvæðið síðan í október, sem heilbrigðisráðuneytið á Gasasvæðinu segir að hafi fellt að minnsta kosti 23 þúsund manns, aðallega óbreytta borgara, en ráðuneytið er rekið af Hamas-samtökunum.
Nefnd um vernd blaðamanna í New York segir að að minnsta kosti 79 blaðamenn og fjölmiðlamenn, langflestir Palestínumenn, hafi verið drepnir síðan stríðið hófst.