Saka Ísrael um að brjóta sáttmála um þjóðarmorð

Mótmælendur í Höfðaborg í Suður-Afríku hafa kallað eftir að Ísraelar …
Mótmælendur í Höfðaborg í Suður-Afríku hafa kallað eftir að Ísraelar láti af hernaðaraðgerðum sínum á Gasa, sem suðurafrísk stjórnvöld segja að sé ekkert annað en þjóðarmorð. AFP

Suður-Afríka hefur sakað Ísrael um að brjóta sáttmála Sameinuðu þjóðanna um þjóðarmorð og segir að hryðjuverkaárásir Hamas 7. október geti með engum hætti réttlætt umfang hernaðaraðgerða Ísraela á Gasa. 

Suðurafrísk stjórnvöld skutu málinu með hraði til Alþjóðadómstólsins (ICJ) til að neyða Ísraela til að stöðva hernaðaraðgerðir þegar í stað. Ísraelar segja að dómsmálið sé skelfilegt og fáránlegt. 

Ekki hægt að réttlæta svona aðgerðir

„Engar vopnaðar árásir á ríki, sama hversu alvarlegar þær eru [...] geta réttlætt eða varið brot á sáttmálanum,“ segir Ronald Lamola, dómsmálaráðherra Suður-Afríku. 

„Viðbrögð Ísraela þann 7. október fóru yfir strikið og hafa leitt til brots á sáttmálanum,“ bætti hann við. 

Stríðið á Gasa hófst með árásum Hamas 7. október í fyrra sem leiddi til þess að um 1.140 manns, aðallega saklausir borgarar, létust. 

Ísrael brást við með umfangsmiklum hernaðaraðgerðum og að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasa, sem lúta stjórn Hamas, hafa yfir 23.000 manns látist í aðgerðum Ísraela, aðallega konur og börn. 

Ronald Lamola, dómsmálaráðherra Suður-Afríku, ásamt Vusimuzi Madonsela, sem er sendiherra …
Ronald Lamola, dómsmálaráðherra Suður-Afríku, ásamt Vusimuzi Madonsela, sem er sendiherra S-Afríku í Hollandi, í dómsal í Haag. AFP

Sáttmálinn undirritaður árið 1948

Suður-Afríka heldur því fram að Ísrael sé að brjóta skilmála sáttmálans, sem var undirritaður árið 1948 þegar heimsbyggðin kallaði „aldrei aftur“ í kjölfar helfararinnar, útrýmingarherferðar nasista gegn gyðingum.

Þar sem Suður-Afríka er á meðal þeirra ríkja sem hafa undirritað sáttmálann, eins og Ísrael, þá geta suðurafrísk stjórnvöld höfðað mál fyrir dómstólnum sem dæmir í deilum milli ríkja. 

Afríska þjóðarráðið (ANC), sem er við stjórnvölinn í Suður-Afríku, hefur lengi verið dyggur stuðningsmaður Palestínumanna, en ANC hefur tengt baráttu Palestínumanna við Ísraela við eigin baráttu við minnihlutastjórn hvítra, sem hafa átt í samstarfi við ísraelsk stjórnvöld. 

Stjórnvöld í Suður-Afríku segja að þau skilji þá ábyrgð og alvarleika þess að saka Ísraela um þjóðarmorð en á sama tíma fordæma þau hryðjuverkaárásir Hamas sem leiddu til stríðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka