Fornleifafræðingar hafa fundið risavaxna forna borg í Amazon-frumskóginum, sem hefur verið falin í mörg þúsund ár. Uppgötvunin er sögð breyta hugmyndum manna um sögu íbúa Amazon.
Byggingar og torg í Upona-héraðinu í austurhluta Ekvador voru tengd með vel skipulögðu vegakerfi og skurðum.
Fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins, að svæðið liggi við rætur eldfjalls þar sem jarðvegurinn var ríkur af næringarefnum en menn telja líklegt að eldfjallið hafi einnig átt þátt í því að borgin lagðist í eyði.
Borgir á hálendi Suður-Ameríku, eins og Machu Picchu í Perú, hafa löngum verið þekktar, en hingað til hefur verið talið að fólk byggi aðeins í litlum þorpum í Amazon, eða eins og hirðingjar.
„Þetta er eldra en aðrir staðir sem við vitum um í Amazon. Við höfum mjög Evrópumiðaða sýn á samfélög, en þetta sýnir að við þurfum að breyta viðhorfi okkar hvað sé menning og samfélag,“ segir prófessorinn Stephen Rostain, við Þjóðarmiðstöð vísindalegra rannsókna í Frakklandi, en Rostain leiðir rannsóknina.
„Þetta breytir því hvernig við horfum á menningarheima í Amazon. Flestir sjá fyrir sér fámenna hópa, líklega nakta, sem búa í kofum og stunda skógarhögg. Þetta sýnir að fólk til forna bjó í flóknum þéttbýlum samfélögum,“ segir Antoine Dorison, sem kemur einnig að rannsókninni.
Talið er að borgin hafi verið reist fyrir 2.500 árum og að fólk hafi búið þar í um 1.000 ár.
Fornleifafræðingar eiga erfitt með að átta sig nákvæmlega á því hversu margir íbúarnir voru, en þeir telja að þeir hafi að minnsta kosti verið tugþúsundir, ef ekki mörg hundruð þúsund.