Líki fanga kastað á götuna innan úr fangelsi

Hermenn vakta nú götur Ekvador, af fyrirskipan ríkisstjórnarinnar, eftir röð …
Hermenn vakta nú götur Ekvador, af fyrirskipan ríkisstjórnarinnar, eftir röð sprenginga og vopnaðra árása. AFP/Stringer

Kólumbíski herinn hefur verið í viðbragðsstöðu í dag af ótta við að glæpamenn sem brutust út úr fangelsum í Ekvador flýi til Kólumbíu. 

Mikið uppnám hefur ríkt í Ekvador vegna ofbeldis glæpagengja síðan leiðtogi stærsta glæpagengisins í landinu, Los Choneros, slapp úr fangelsi, sem varð til þess að stjórnvöld gripu til aðgerða gegn eiturlyfjahringjum. 

Kólumbía og Perú auka öryggi á landamærum sínum

Hermenn vakta nú götur Ekvador, að fyrirskipan ríkisstjórnarinnar, eftir röð sprenginga og vopnaðra árása. Minnst sextán manns hafa látið lífið á götunum síðustu daga. Þá hefur lögreglan staðfest áreiðanleika myndbands sem sýnir lík fanga, sem vafið var inn í plast, kastað á götuna innan úr fangelsi. 

Minnst 175 fangavörðum og embættismönnum er haldið í gíslingu af föngum í fangelsum landsins þar sem eiturlyfjabarónar sinna yfirgripsmiklu verkefni. Ástandið hefur orðið til þess að nágrannaríkin Kólumbía og Perú hafa aukið öryggi á landamærum sínum.

Talið er að um 20.000 einstaklingar séu hluti af glæpagengjum í Ekvador, en landið telur um 17 milljónir manna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert