Ching-Te kjörinn forseti Taívan

Lai Ching-Te ásamt varaforsetaframbjóðandanum Hsiao Bi-Khim.
Lai Ching-Te ásamt varaforsetaframbjóðandanum Hsiao Bi-Khim. AFP/Alastair Pike

Lai Ching-te, varaforseti Taívan, hefur verið kjörinn forseti Taívan eftir harða kosningabaráttu við frambjóðanda sem vildi styrkja tengslin við Kína. Ching-Te heitir því að standa vörð um lýðræði í landinu og að verja eyjuna frá ógnunum Kína.

Taív­an hef­ur búið yfir sjálfs­stjórn frá borg­ara­stríðinu árið 1949 og líta Taívanar á landið sem full­valda ríki. Þeir hafa eig­in mynt, stjórn- og dóms­kerfi, en hafa aldrei lýst form­lega yfir sjálf­stæði.

Kín­verj­ar líta á eyj­una sem sitt landsvæði og hafa hótað því að taka yfir stjórn henn­ar, jafnvel með valdi ef þess þarf.

Alls voru þrír í framboði og hlaut Ching-Te rétt rúmlega 40% atkvæða.

Völdu lýðræði fram yfir forræðishyggju

Ching-Te var í framboði fyrir Lýðræðislega framfaraflokkinn (DPP) en þetta er þriðja kjörtímabilið í röð sem DPP vinnur forsetaembættið.

Hann ávarpaði stuðningsmenn sína eftir að andstæðingar hans viðurkenndu ósigur.

„Við erum að segja alþjóðasamfélaginu að í valinu á milli lýðræðis og forræðishyggju munum við standa á hlið lýðræðisins,“ sagði Ching-Te.

Kommúnistastjórnin í Kína hefur áður gagnrýnt Ching-Te sem hættulegan „aðskilnaðarsinna“ og í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar hét varnarmálaráðuneyti Kína því að brjóta á bak aftur allar hreyfingar í átt að sjálfstæði Taívans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert