Sádi-Arabía í flókinni stöðu

Krónprinsinn Mohammed bin Salman (MBS), sá sem öllu ræður í …
Krónprinsinn Mohammed bin Salman (MBS), sá sem öllu ræður í heimalandi sínu AFP/Sergei Svostyanov

Þótt Sádi-Arabía sé svarinn andstæðingur uppreisnarmanna Húta í Jemen þá er ekki víst að allir þar hafi fagnað loftárásum Bandaríkjamanna og Breta í fyrrinótt.

Sádar hafa síðan 2015 sjálfir farið fyrir hernaðarbandalagi til höfuðs Hútum og staðið fyrir þúsundum loftárása gegn sveitum þeirra.

Vilja komast út úr Jemen

Nýlega hefur Sádi-Arabía þó leitað því að koma á vopnahléi í Jemen og leitað að útgönguleið úr blóðugum átökum í Jemen. Orðalag yfirlýsingar utanríkisráðuneytis Sádi-Arabíu eftir loftárásirnar vekur athygli. Þar er kallað eftir að meðalhófs sé gætt og forðast skuli að átök breiðist út enn frekar.

Greinandi í alþjóðamálum metur afstöðu Sáda sem svo að þeir séu að taka mið af andstöðu almennings við hernaðaraðgerðir Ísraela á Gasa og stuðning Bandaríkjanna við þær. Í hina röndina er þeim umhugað um öryggi á Rauða hafinu. Óvænt hryðjuverk Hamas gegn ísraelskum borgurum 7. október á síðasta ári gerði að mestu úti um vonir Sáda um að friður væri að skapast í heimshlutanum. Þykir atburðarrásin nú trufla stórhuga fyrirætlanir krónprinsins Mohammed bin Salman (stundum kallaður MBS) um félagslegar- og efnahagslegar umbætur í konungdæminu fyrir árið 2030.

Bið gæti orðið á því að Sádi-Arabía verði næsti áfangastaður …
Bið gæti orðið á því að Sádi-Arabía verði næsti áfangastaður ferðamanna, eins og efni stóðu til. AFP/Patrick Hertzog

Rauðhafsströndin er lykilþáttur í áætlunum krónprinsins, en þar átti að koma upp fjölda sumardvalarstaða. Sádi-Arabía sem að mestu hefur verið lokuð ferðamönnum á að verða næsti stóri áfangastaður þeirra samkvæmt áætlunum MBS.

Bætt samband við Íran lofaði góðu

Svo að þessar áætlanir megi ná fram að ganga hafa stjórnvöld í Sádi-Arabíu lagt allt kapp á nýlega að stillt sé til friðar í Jemen. Um tíma leit út fyrir að hlutir horfðu til betri vegar þegar Kínverjar höfðu milligöngu um það í mars á síðasta ári að Sádi-Arabía og Íran tóku upp stjórnmálasamband að nýju.

Það flækir svo enn stöðu Sádi-Arabíu að þar í landi eru staðsettir um 2.700 bandarískir hermenn og gæti því reynst flókið að halda landinu utan frekari átaka.

Þótt lítið fari fyrir lýðræði í Sádi-Arabíu fylgjast valdhafarnir þó með almenningsálitinu. Nýleg könnun sem gerð var þar í landi leiddi í ljós að 96% Sáda telja að landið ætti að skera á öll tengsl við Ísrael í kjölfarið á hernaðarátökunum á Gasa.

Þar sem Bandaríkin standa þétt að baki Ísrael gæti það reynst Sádum flókið að skuldbinda sig of mikið í tilteknar hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum.

Antony Blinken, utanríkisráðhera Bandaríkjanna, i heimsókn til Sádi-Arabíu á mánudaginn.
Antony Blinken, utanríkisráðhera Bandaríkjanna, i heimsókn til Sádi-Arabíu á mánudaginn. AFP/Evelyn Hockstein
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert