Símasvindl í Noregi tíðast frá Sambíu

Stein-Erik Vellan hefur líklega ástæðu til að brosa, svindltilraunum gegnum …
Stein-Erik Vellan hefur líklega ástæðu til að brosa, svindltilraunum gegnum Telia, sem hann hefur veitt forstöðu frá 2019, fækkaði um rúmar þrjátíu milljónir milli ára. Það er að minnsta kosti hald sérfræðinga Telia en skuggatölfræðin á þessum vettvangi er þó umtalsverð. Ljósmynd/Telia Norge

Telia, næststærsta fjarskiptafyrirtæki Noregs, áætlar að það hafi sparað viðskiptavinum sínum samtals 20 milljónir króna, jafnvirði rúmra 266 milljóna íslenskra króna, í formi afstýrðra svindltilrauna árið 2023.

Tvö stærstu fjarskiptafyrirtæki landsins, Telenor og Telia, verja miklu púðri í svindlvarnir og er nú svo komið að sex af tíu svindltilraunum, sem beinast gegn viðskiptavinum Telia í Skandinavíu, eru stöðvaðar í Noregi.

Um þverbak keyrði síðasta fjórðung nýliðins árs þegar átján milljónir tilrauna til að svindla á viðskiptavinum Telia voru gerðar, samanborið við sex milljónir sama tímabil árið áður. Af þessum tilraunum var upphafsland 46 prósenta Afríkuríkið Sambía.

Úr 76,6 milljónum í 43,7

„Við urðum vitni að þreföldun í fjölda svindlsamtala undir lok ársins sem að miklu leyti má tengja verslunarhátíðum á borð við Svörtu vikuna [kringum Svarta föstudaginn] og jólin,“ segir Øivind Kristiansen, svindlsérfræðingur Telia Norge, við norska ríkisútvarpið NRK, en Telia-vörumerkið er upphaflega sænskt.

Sé hins vegar litið til heildarsvindltilrauna ársins í fyrra hafði þeim fækkað umtalsvert frá 2022, úr 76,6 milljónum í 43,7. Við þeirri fækkun á Kristiansen fá svör. Skýringarinnar segir hann mega leita meðal annars í svindlsíum Telia auk þess sem fjarskiptabransinn í heild sinni og yfirvöld hafi gert gangskör í svindlmáum. Skuggatölfræðin sé þó engu að síður voldug hvað snertir heildarfjölda svindltilrauna og margt sleppi í gegn.

Hvað svindl frá Sambíu varðar segir sérfræðingurinn þá tölfræði koma nokkuð á óvart. Skýringuna sé ef til vill að finna í því að takmarkað eftirlit sé með fjölda símanúmera í landinu sem þar með megi misnota. Númerin fari í útleigu frá símafyrirtækjum til svikahrappa sem beiti þeim í gróðaskyni.

„Wangiri“-aðferðin

Þar sé svokölluð „Wangiri“-aðferð ofarlega á baugi. Hringt er þá örstutt úr erlendu númeri í viðtakanda, til dæmis í Noregi. Sá sem ekki uggir að sér hringi þá oft í hugsunarleysi til baka sem geti orðið dýrt. Hafi þá oftar en ekki verið svo um hnútana búið að þótt sá, sem hringir til baka, leggi á þegar ekki er svarað, komist á símtalstenging sem svo vari í margar klukkustundir. Upphæðin komi svo á símareikning viðkomandi sem neyðist til að greiða reikninginn og féð rennur til svindlaranna.

Þarna sé svindliðnaður sem velti óheyrilegum peningaupphæðum ár hvert, rétt eins og greiðslukortasvik sem eru jafngömul greiðslukortatækninni sjálfri. Og þótt símanúmerið sé skráð í Sambíu er ekkert sem hindrar þann sem svindlinu beitir í að vera staddur í allt öðru landi.

Önnur merkileg tölfræði sýnir svo að 62 prósent svindlsímtala sem koma til Norðurlandanna koma til Noregs, nítján prósent til Svíþjóðar, fjórtán til Finnlands og aðeins þrjú prósent til Danmerkur.

Telenor hindri 95 prósent tilrauna

Þetta á Kristiansen enn fremur erfitt með að útskýra en giskar á að hluti skýringarinnar geti að minnsta kosti verið sá að laun séu há í Noregi og Norðmönnum sé hættara en öðrum við að treysta náunganum. Þess vegna þyki þeir upplagt skotmark óprúttinna.

Thorbjørn Busch er kollegi Kristiansens í Telenor, norska risanum í fjarskiptum, og segir hann fyrirtækið sjá færri svindltilraunir gegn sínum viðskiptavinum. Takist Telenor alla jafna að hindra að svikararnir næli sér í peninga í 95 prósentum tilfella. Markmið Telenor sé hins vegar að hækka það hlutfall í 100 prósent.

„Við höfum einnig það fyrirkomulag að sá, sem hringir til baka eftir að hafa fengið ósvarað símtal, bíður ekki tjón. Við bakfærum kostnaðinn við símtalið,“ segir Busch af vinnubrögðum Telenor í þessari tegund svindlmála.

NRK

NRKII (rándýrt SMS-svindl)

Nettavisen (aðrir hringja úr þínu númeri)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert